Rússneskar fréttastofur skýrðu frá þessu. Segja þær að Lavrov hafi sagt að friðarviðræðum við Úkraínu verði haldið áfram en það þýði ekki að hættan á þriðju heimsstyrjöldinni sé úr sögunni.
Hann sagði hættuna á þriðju heimsstyrjöldinni vera vegna spennu í friðarviðræðunum á milli Rússlands og Úkraínu og gagnrýndi hann nálgun Úkraínumanna til viðræðnanna. „Góður vilji hefur sín takmörk og ef hann er ekki gagnkvæmur þá er það ekki til að auðvelda viðræðurnar. En við höldum áfram viðræðum við samninganefnd Zelenskyy og verðum áfram í samskiptum,“ sagði hann.
Hann sakaði Úkraínumenn síðan um að sigla undir fölsku flaggi í friðarviðræðunum, þeir þykist bara eiga í samningaviðræðum. „Hann er góður leikari,“ sagði Lavror um Zelenskyy forseta sem var einmitt leikari áður en hann snéri sér að stjórnmálum.
Lavrov sagði einnig að stríðinu í Úkraínu muni að lokum ljúka með samningi en innihald hans muni ráðast af hernaðarlegri stöðu stríðsaðila á þeirri stundu sem samningar nást.
Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, svaraði ummælum Lavrov að bragði á Twitter: „Rússar missa síðustu vonina um að hræða heimsbyggðina frá því að styðja Úkraínu. Af þeim sökum talið um „raunverulega“ hættu á þriðju heimsstyrjöldinni. Þetta þýðir einfaldlega að Moskva áttar sig á yfirvofandi ósgri í Úkraínu. Af þeim sökum verður heimsbyggðin að auka enn stuðninginn við Úkraínu svo við getum sigrað og varið evrópskt og alþjóðlegt öryggi.“
Russia loses last hope to scare the world off supporting Ukraine. Thus the talk of a ‘real’ danger of WWIII. This only means Moscow senses defeat in Ukraine. Therefore, the world must double down on supporting Ukraine so that we prevail and safeguard European and global security.
— Dmytro Kuleba (@DmytroKuleba) April 25, 2022