fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Synjað um aðgang að námskeiði fyrir matsmenn í forsjármálum – „Hvað hafa þau að fela?“

Erla Hlynsdóttir
Mánudaginn 25. apríl 2022 20:53

Gabríela Bryndís Ernudóttir. Skjáskot/Eigin Konur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matsmenn í forsjármálum eru fámennur hópur sálfræðinga sem hafa gríðarleg völd þegar kemur að lífi og lífsgæðum barna.

Gabríela Bryndís Ernudóttir, sálfræðingur og formaður Lífs án ofbeldis, hefur verið gagnrýnin á starfshætti matsmanna í forsjármálum.  Hún sótti nýverið um að komast á námskeið sem var auglýst fyrir sálfræðinga í dómsmálum, matsmennina, en var hafnað án rökstuðnings.

DV fjallaði nýverið um mál þar sem matsmenn töldu föður hæfari forsjáraðila en móður þrátt fyrir að faðir væri með dóm fyrir ofbeldi gagn stjúpsyni sínum.

Sjá einnig: Maður með dóm fyrir ofbeldi gegn stjúpbarni vann forsjármál gegn móður sonar þeirra

Í nýjasta þætti af Eigin Konum með Eddu Falak er rætt við Helgu Sif sem er í forsjármáli gegn barnsföður sínum og stígur hún fram eftir að barnsfaðir hennar birti gerðardóm á Facebook og nafngreindi bæði hana og börnin. Matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að faðir væri hæfur til að fara með forsjá og dómari dæmir eftir því sameiginlega forsjá en lögheimili 10 ára langveiks sonar þeirra hjá föður, þrátt fyrir að drengurinn hafi dvalið hjá móður og reiknað er með því að hann verði sóttur með lögregluvaldi.

Hjónin voru saman í tólf ár en konan kom inn í sambandið með eitt barn, sem upplifði síðan ofbeldi af hálfu stjúpföður og reyndi síðar sjálfsvíg með þeim afleiðingum að barnið varð meðvitundarlaust. Dóttir sem þau eiga saman hefur lýst kynferðisofbeldi af hálfu föður. Gabríela Bryndís hefur verið móðurinni til aðstoðar eftir að Bjarkarhlíð vísaði henni á Líf á ofbeldis. Þær Helga Sif og Gabríela Bryndís eru saman í viðtalinu hjá Eigin Konum.

Forsjármálin falin

Gabríela Bryndís segir forsjármál mjög falin. „Dómarnir eru ekki birtir nema í Landsrétti og þá er ekki öll sagan sögð í þessum dómum því það er bara farið eftir því sem stendur í matsgerðinni. Matsmenn eru ótrúlega fáir. Það eru ekki margir sálfræðingar sem taka að sér þessi mál. Ég veit bara um örfáa. Alltaf sömu nöfnin. Þetta er fólk sem þekkist líka vel, jafnvel vinnur saman á stofu. Eins og þessi Guðrún [í máli Helgu Sifjar, insk. blm] sem talar við barnið vinnur á sömu stofu og matsmaðurinn í málinu hennar Bryndísar Ásmunds sem heitir Gunnar,“ segir hún í viðtalinu og vísar til forsjármáls Bryndísar Ásmundsdóttur sem tapaði forsjármáli sínu þar sem matsmaður taldi föður hæfari þrátt fyrir að Bryndís hafi greint frá ofbeldi sem hann beitti hana en matsmaður taldi það vera falskar minningar móður. „Þannig að ef hún [Helga Sif] myndi fara í annað forsjármál myndi hún bara lenda á einhverjum vini hins matmannsins.“

Sjá einnig: Edda segir að þerapisti og barnsfaðir Bryndísar hafi haft samband við sig fyrir viðtalið – „Þau voru að reyna að sanna fyrir mér að þú sért „geðsjúkur ofbeldismaður““

Gabríela Bryndís tekur fram að það sé ekki hennar tilfinning að allir matsmenn hafi eitthvað illt í huga, og vonandi enginn. „En halda kannski að þeir séu að gera rétt. En svo bara myndast ákveðin hefð. Einhverjir sem eru að taka að sér rosalega mörg mál eru að búa til dómafordæmi. Þá einhvern veginn lagast þetta aldrei því það koma kannski ekki margir nýir inn í þennan bransa. Flestir eru komnir yfir ákveðinn aldur, yfir sextugt, eru búnir að vera í þessum bransa í ótrúlega langan tíma og eru kannski ekki búnir að kynna sér neitt um kynbundið ofbeldi eða það nýjasta nýtt í áfallafræðum.“

Hún segir að dómarar hafi lista yfir þennan þrönga hóp matsmanna sem þeir þekkja og kalli alltaf eftir sama fólkinu. „Það er ákveðinn listi sem dómstólasýslan hefur undir höndum yfir fólk sem tekur að sér þessi mál. Núna hefur verið svolítið mikil gagnrýni á störf matsmanna undanfarið í fjölmiðlum. Það var verið að auglýsa námskeið fyrir matsmenn til að reyna að fá nýtt fólk inn og líka svara þörf fyrir meiri fræðslu, sem er bara frábært. En svo kemur í ljós að það fá ekkert allir sálfræðingar að fara á þetta námskeið. Þau bara ákveða hverjir það eru því þau taka svo mikið af geðþóttaákvörðunum,“ segir hún í viðtalinu.

40 tíma námskeið

DV hefur fengið upplýsingar um að námskeiðið er 40 klukkustunda langt og kostar 330 þúsund krónur, en það var auglýst fyir félagsmenn í Sálfræðingafélagi Íslands. 20 stundir eru kenndar í maí og 20 stundir í október. Þau sem hafa umsjón með námskeiðinu eru sálfræðingar sem hafa öll starfað sem matsmenn, þau Álfheiður Steinþórsdóttir, Gunnar Hrafn Birgisson, Guðrún Oddsdóttir og Oddi Erlingsson.

Umsókn átti að fylgja upplýsingar um lokapróf í sálfræði, starfsleyfi og starfsreynslu í faginu, skilyrði sem Gabríela Bryndís uppfyllir. Þá var talað um að takmarkaður fjöldi kæmist að en hún sendi sína umsókn inn aðeins nokkrum mínútum eftir að námskeiðið var auglýst og þurfti svo að ýta á eftir svari.

„Ég fékk bara: Nei, því miður. Þú mátt ekki koma á þetta námskeið,“ segir hún í Eigin Konum. „Þó að þeim beri engin lagaleg skylda til að hleypa mér á þetta námskeið þá kemst ég ekki á svona lista. Ekki það að ég ætli að verða matsmaður en ég hefði alveg viljað kynna mér þessi fræði.“

Edda Falak spyr þá hvort hún hafi ekki verið að gagnrýna þau opinberlega, sem Gabríela Bryndís játar fúslega. „Jú, það er ástæðan líklegast,“ segir hún og bendir á að sá sem sendi henni synjunina hafi verið matsmaður í máli Bryndísar Ásmundsdóttur.

„Taka sér vald sem þau eiga ekki að hafa“

„Hvað hafa þau að fela? Ef að þau vilja hafa allt uppi á borðum, af hverju þá ekki bara bjóða fólki að koma og við bara tölum saman. … Þetta er ekki alveg í takti við hvernig vísindasamfélagið virkar. Það er fullkomlega eðlilegt að gagnrýna vinnubrögð eða óvísindalegar aðferðir. Það er bara þannig að maður gerir það í vísindaheiminum og það eiga ekki að vera neinir eineltistaktar. Þetta eru ekki bara eineltistaktar, þau eru að taka sér eitthvað vald sem þau eiga ekki að hafa. Þau eru að hafa áhrif á hverjir geta orðið matsmenn,“ segir hún.

Edda Falak spyr síðan hvað gerist núna í máli sonar Helgu Sifjar. „Hann verður bara sóttur af lögreglunni,“ segir Gabríela Bryndís.

Og Helga Sif segir: „Þetta er auðvitað bara brot á mannréttindum að gera svona framkvæmd. Ég er búin að kæra þetta upp í Landsrétt en dómarar líka vinna saman og þetta er lítið samfélag. Ég veit ekki hvort ég fái einhverja betri niðurstöðu þar. Þetta er það sem er á dagskrá. Það er bara að koma bara og taka hann.“

Edda spyr hvað gerist ef hann vilji ekki fara. Helga Sif svarar: „Mér skilst að það megi ekki þvinga hann en ég hef heyrt alveg ógeðslegar sögur af svona framkvæmdum þannig að ég veit ekki neitt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum