Andleg samkoma sem haldin var við Esjurætur á laugardagskvöld olli töluverðu uppnámi og var bæði tilkynnt til lögreglu og barnaverndar. Orðalag í enskum kynningartexta samkomunnar fór fyrir brjóstið á fólki en þar var teflt saman atriðum sem flestir vilja ekki sjá tengd saman: Erótík, ofskynjunarlyf og börn. Í texta Facebook-viðburðarins segir meðal annars:
„This is a unique event, where parents are able to bring their children along with them, as we will be acting as one commune-ity, sharing in the language of Love in every way possible, not just romantic love.“
„Through the meditative practice of dance in combination with ceremonial cacao and sacred medicine, we will reconnect with our subconscious mind and uncover our hidden patterns of relating. We will explore in depth who we are in our romantic partnerships, friendships, and parental roles, we will celebrate the beautiful connections that exist within and between us, clean blockages, enact war, create peace, and generate deeper collective understanding grounded in unconditional love.“
Tvær konur stóðu að viðburðinum en önnur þeirra er hin litháíska Teja Doro. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir umdeild skrif sín um barnagirnd tónlistarstjörnunnar Michael Jackson, á vefinn devotedsounds.com, þar sem segir, í íslenskri endursögn:
„Michael Jackson átti í samböndum við tíu og sjö ára drengi. Það köllum við forkastanlegt í okkar samfélag. En er það svo? Ef drengirnir höfðu gaman af, ef þeir voru ástfangnir af Michael Jackson og Michael var ástfanginn af þeim…“
Kona ein sem tilkynnti viðburðinn til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fékk þau svör frá lögreglu að tilkynningar frá fleiri áhyggjufullum borgurum væru að berast. Í viðræðum sem konan átti við Teju Doro neitaði Teja því fyrst að börn undir 18 ára hefðu verið á samkomunni. Það mun hins vegar ekki vera rétt því DV hefur fengið staðfest að börn voru viðstödd.
DV hafði samband við Ævar Pálma Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hafði málið ekki borist til deildarinnar en tilkynningar væntanlega farið í meðferð á einhverri af hverfastöðvum lögreglunnar.
DV hafði samband við Lindu Mjöll Stefánsdóttur sem skipulagði samkomuna ásamt áðurnefndri Teju. Linda kannast hvorki við að lögregla né barnavernd hafi haft samband vegna samkomunnar. Hún hafði hins vegar orðið vör við óróa á samfélagsmiðlum vegna málsins en segir hann tilkominn vegna misskilnings. Teja hefði mátt orða tilkynninguna betur en hún er frá Litháen og er ekki með ensku að móðurmáli.
„Hún notaði orðalag sem kom einhverju af stað. Hún orðaði þetta kannski eitthvað brösuglega, vinkona mín, og það fór illa í fólk þó að ég átti mig ekki alveg á hvernig sumir gátu skilið þetta,“ segir Linda.
Linda tekur fram að ekkert erótískt hafi farið fram á samkomunni og enginn hafi fækkað fötum. Fólk hafi hins vegar dansað og þannig fagnað vorinu: „Það var engin erótík sem slík en þetta var dans sem var táknrænn fyrir þennan tíma árs. Fólk mátti ráða sjálft en yfir höfuð var þetta þessi eðlilega kakóathöfn,“ segir Linda en viðurkennir að neytt hafi verið sveppa í litlu magni:
„Það var boðið upp á lítið magn af sveppum til að laða fram heilindi, það var ekkert sem olli ofskynjun. Við erum að vinna í heilindum og trúum á að eitthvað úr plöntu sem er ekki keypt afurð sé eitthvað sem ekki eigi að færa í skömm.“
Linda segir að það sé miður ef fólk hafi fengið slæma mynd í vitund sinni af samkomunni. „Að sjálfsögðu verð ég vör við hvernig samfélaginu líður núna. Hjarta mitt liggur þar. Mér þykir leitt að þetta hafi snert fólk illa, sérstaklega af því fólk þekkir mig og veit að hverju ég hef verið að hlúa að síðustu árin. Hér drekkur enginn og við bjóðum ekki upp á áfengi því við trúum ekki á notkun áfengis. Núna býðst eitthvað annað til að laða fram heilindi og fólk er að opna sig gagnvart því og vill létta af því skömm,“ segir Linda, sem trúir á hæfilega notkun sveppa.
Linda telur að fólk hafi tengt erótík við þessa samkomu vegna þessa að hún hafi í fyrra staðið að fyrstu tantrísku hátíðinni hér á landi. Þar hafi engin börn verið enda hafi það verið allt annars konar samkoma. Erótík hafi ekki verið á samkomunni undir Esjurótum og þar hafi enginn fækkað fötum:
„Ekkert gerðist sem var ekki fjölskylduvænt. Börnin hoppuðu og léku sér úti í grasinu og svo komu þau aftur inn. Þetta var snemma kvölds og var búið snemma og hentaði fyrir fjölskylduna. Ég hef líka fundið það í mínu starfi að oft þarf að fá pössun því ekki verið að hlúa að börnum á sama tíma og því fannst okkur tilvalið að bjóða börnin velkomin líka,“ segir Linda.