Undanfarið hefur DV greint frá langvarandi deilum innan UMFN um glímudeild félagsins. Ekki hafa efnisatriði þess ágreinings legið ljós fyrir en mál hafa þróast með þeim hætti að stofnandi deildarinnar, Guðmundur Stefán Gunnarsson, hefur sagt skilið við deildina.
Í undanfara þeirrar ákvörðunar gekk það meðal annars á að yfirstjórn UMFN skipti um skrá á útidyrahurð íþróttahússins í Njarðvík svo iðkendur komust ekki til æfinga. Ennfremur var Guðmundur sakaður um að hafa tekið keppnisdýnur traustataki svo iðkendur í nýstofnaðri júdódeild gátu ekki sótt æfingar.
Eiginkona Guðmundar, Eydís Mary Jónsdóttir, hefur nú stigið fram og birt langan pistil á FB-síðu Guðmundar. Þar segir hún að frumorsök „stóra dýnumálsins“ svonefnda séu atferli eltihrellis sem hafi ofsótt þau hjónin síðan árið 2019 og grafið undan þeim með baktali og óhróðri. Eydís skrifar:
„Það er einfaldlega ekki hægt að skilja “stóra dýnumálið” og aðgerðir stjórnar og framkvæmdastjóra UMFN gagnvart Glímudeild UMFN nema setja það í samhengi við það að frá árinu 2019 erum við hjónin búin að vera að upplifa það að vera ofsótt af eltihrelli, sem virðist vera með manninn minn á heilanum og gaf það út að viðkomandi ætlaði að “gera út um” Gumma og deildina! (sjá mynd 1 sem er úr aðalfundargerð JSÍ frá því fyrir nokkrum árum þar sem Gummi varar við þessu. Viðkomandi stóð á fætur, ekki til að neita því að það væri fyrirætlunin, heldur til þess að réttlæta það fyrir fundinum. Stjórnarseta þessa einstaklings í JSÍ skipaði stóran þátt í því að Júdódeildinni var breytt í Glímudeild fyrir ári síðan!)“
Eydís segir að eltihrellirinn hafi haldið uppi stöðugum árásum á þau hjónin án þess að beina spjótum sínum beint að þeim, en hafi þess í stað sótt að fólki sem tengist hjónunum:
„Það virðist ekki skipta máli hvað Gummi gerir eða gerir ekki, viðkomandi, og aðilar tengdir þessum einstaklingi, hafa haldið uppi stöðugum árásum, en þó aldrei beint við okkur, heldur alltaf óbeint, þannig að fólk í okkar nær- og starfsumhverfi (t.d. stjórnir glímudeildarinnar, skrifstofa og stjórnir UMFN, yfirmenn Gumma, Glímusamband Íslands, starfsfólk og kjörnir fulltrúar hjá Reykjanesbæ og aðrir okkur tengdir og ótengdir) hefur orðið fyrir gríðarlegum ágangi þar sem verið er að reyna að sannfæra þessa aðila um meint brot Gumma og hversu slæmur maður hann er.“
Eydís segir að áróðurinn gegn Guðmundi geti falist í klukkustímalöngum niðurrifssímtölum og margra blaðsíðna óhróðursbréfum. Hún fer yfir hið svokallaða dýnumál, þar sem beiðni hafi komið frá nýstofnuðu júdófélagi um svo mikil afnot af aðstöðu Glímudeildar UMFN að iðkendur hennar hefðu orðið án aðstöðu ef látið hefði verið undan beiðninni.
Þá segir frá því að Guðmundur hafi verið sakaður um fjárdrátt en sú ásökun hafi við rannsókn reynst tilhæfulaus. Hann hafi verið sakaður um ofbeldi gegn barni vegna þess að ungur iðkandi slasaðist á æfingu hjá Glímudeild UMFN og það mál hafi farið í fullkomlega eðlilegan farveg. Óhróður í garð Guðmundar hafi gengið svo langt að leitt hafi til þess að bæjarstjóri Reykjanesbæjar hafi hótað honum lögsókn:
„Á svipuðum tíma berst stjórn Glímudeildarinnar beiðni frá aðilum sem eru að stofna nýjar deildir, þar sem óskað er eftir láni á dýnum, til skamms tíma til þess að hefja megi æfingar á meðan beðið er eftir nýjum dýnum. Glímuheimurinn á Íslandi er lítill og samheldinn og mikil samvinna er á milli deilda sem leggja sig fram við að styrkja hvor aðra eftir kostum, því án annarra deilda hafa hinar deildirnar enga til að keppa við. Stjórn Glímudeildarinnar (ekki bara Gummi) ákveður að lána hluta af keppnisvellinum, tímabundið. Nokkrum vikum síðar hefur Íþrótta og tómstundafulltrúi samband og spyr um dýnurnar og upp hefst skoðunarágreiningur um það hver eigi dýnurnar eða afnotarétt á þeim. Á þessum tíma er Gummi búin að víkja sem formaður Glímudeildarinnar og er titlaður sem varamaður í stjórn og skýrt tekið fram á heimasíðu deildarinnar hver nýr formaður stjórnar er. Ítrekað var samt haft samband við hann, en ekki stjórn Glímudeildarinnar, út af þessu máli, hann og stjórn Glímudeildarinnar vænd um þjófnað og hótað lögsókn (í gegnum síma) af bæjarstjóra Reykjanesbæjar. Í kjölfarið á þessu fær stjórn Glímudeildarinnar, þau munnlegu skilaboð, að hún yrði að losa sig við Gumma, úr stjórn og úr þjálfarateymi deildarinnar. Gummi segir af sér úr stjórn, en stjórn glímudeildarinnar neitaði að verða við þeim tilmælum að fjarlægja hann úr þjálfara- og iðkendahóp deildarinnar. Í kjölfarið hófst atburðarrás, sem enginn er tilbúin að ræða og ekki finnst neitt skriflegt um, nema nafnlausir póstar sem sendir hafa verið á dagblöð, yfirmenn og samstarfsfólk Gumma þar sem hann er m.a. sakaður um þjófnað, afgreiðsla ÍT-ráðs (sjá mynd 6) og ýmislegt fleira. Föstudaginn 8. Apríl 2022 var skipt um skrár í húsnæði deildarinnar án fyrirvara eða annar útskýringa en þeim sem komu fram á síðu UMFN (sjá mynd 7), í annað skipti á stuttum tíma. Börn og þjálfarar voru, aftur, læst úti úr æfingarhúsnæði auk þess sem mikilvægur æfinga og keppnisbúnaður var læstur inni einum degi fyrir mikilvægt mót. Einn af öðrum sögðu stjórnarmenn úr stjórn Glímudeildarinnar, þar til einungis stjórnarformaður var eftir, sem svo kallaði til aðalfundar deildarinnar 20. Apríl, en þá hafði UMFN tvisvar sinnum frestað aðalfundi deildarinnar. UMFN lagði sig, af óútskýrðum ástæðum, gegn því að þessi fundur væri haldinn (sjá mynd 7 og 8 ) og ekki sér enn fyrir endann á því máli.“
Pistilinn í heild, ásamt skýringarmyndum, má sjá með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.