„Í raun erum við að hefja stríð gegn NATÓ-ríkjunum. Við munum eyðileggja stríðsmaskínu NATÓ og íbúa ríkjanna. Þegar þessari aðgerð (innrásin í Úkraínu, innsk. blaðamanns) er lokið mun NATÓ þurfa að spyrja sig: Eigum við nóg af vopnum til að verja okkur? Er eitthvað eftir til að verja? Við munum ekki sýna þeim neina miskunn,“ sagði Valdimir Soloviev, einn þekktasti sjónvarpsmaður landsins en hann tengist Pútín og stjórn hans nánum böndum.
Samkvæmt fréttum erlendra fjölmiðla, sem hafa látið þýða ummæli Soloviev, þá sagði hann einnig að það eigi að „afnasistavæða“ Úkraínu en Rússar séu í stríði við Evrópu og restina af heiminum og það hafi kennt Rússum eitt: „Við verðum að grípa til harðari aðgerða.“
Soloviev hefur árum saman verið talinn vera málpípa rússnesku ríkisstjórnarinnar og Pútíns. Pútín hefur sæmt hann fjölda heiðursorða og hann er á listum Vesturlanda yfir þá Rússa sem sæta refsiaðgerðum.
Í myndbandinu hér fyrir neðan er búið að texta ummæli Soloviev en það var Carl Bildt, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar og núverandi stjórnarmaður í hugveitunni European Council on Foreign Relations, sem birti það á Twitter.
And now 🇷🇺 state TV talks about “war against Europe and the world” once the operation against 🇺🇦 has been concluded. Without mercy. pic.twitter.com/faBjJy7U1t
— Carl Bildt (@carlbildt) April 21, 2022