Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Samkvæmt fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra er Ívar Máni Garðarsson forráðamaður bílasölunnar. Hann svaraði ekki símtölum Fréttablaðsins í gærkvöldi.
Bílasalan selur rafbíla. Einn þeirra sem keypti bíl af henni er Jóhannes Þór Jóhannesson, ellilífeyrisþegi. Hann keypti nýjan Ford Mustang þann 11. janúar og greiddi 1,5 milljónir við undirritun kaupsamnings og afganginn, 6,4 milljónir, fjórum dögum síðar. Bílinn hefur hann ekki fengið. „Bílasalarnir svara ekki í síma og munu núna vera komnir til Marbella á Spáni,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið. Hann er með lögmann sem vinnur að málinu og hefur það verið tilkynnt til lögreglunnar.
Fjórir lykilstarfsmenn bílasölunnar hættu nýlega störfum vegna þessara viðskiptahátta. Þetta eru aðstoðarframkvæmdastjóri, sölustjóri, innkaupastjóri og mannauðsstjóri. „Við vitum að stjórnendur Bensinlaus.is eru að sýna viðskiptavinum verksmiðjupantanir á bílum úti á meginlandi Evrópu sem enginn fótur er fyrir, en með eftirgrennslan vegna nokkurra svona tilvika komst ég að því að engin pöntun lá fyrir,“ segir Jóhanna Pálsdóttir, fyrrum innkaupastjóri bílasölunnar.
Gísli Gíslason, fyrrum sölustjóri bílasölunnar, staðfesti sögu Jóhönnu og sagði að hluti svikanna sé að seinka ítrekað afhendingu bílanna hér á landi.
Nánar er hægt að lesa um málið í Fréttablaðinu í dag.