Lögreglumenn höfðu aftur afskipti af 16 ára dreng með sama litarhaft og strokufanginn Gabríel Douane Boama í morgun. Móðir drengsins greindi frá því í færslu á samfélagsmiðlum en um er að ræða sama dreng og var tekinn í misgripum í strætisvagni í gær. „Þetta er ekki bara lögregluvandamál, þetta er samfélagslegt vandamál,“ sagði móðir drengsins í færslunni.
Þessi misheppnaða aðgerð lögreglunnar í bakaríinu náðist á myndband og er umrætt myndband í dreifingu þessa stundina á samfélagsmiðlinum Twitter. Í myndbandinu má sjá lögregluna ganga inn í bakaríið þar sem 16 ára drengurinn situr ásamt móður sinni. Móðirin kemst greinilega í uppnám og lætur lögregluna heyra það þegar hún kemur inn í bakaríið. „Þetta er ekki hann, þetta er barnið mitt!“ segir hún við lögreglumennina.
Þá segist hún vita hver það var sem tilkynnti lögreglunni ranglega að sonur hennar væri strokufanginn. „Ég sá að þetta var maðurinn í Teslunni, ég veit að hann hringdi í ykkur.“
Kjarninn fjallaði um myndbandið af aðgerðum lögreglu fyrr í dag en svo virðist sem að myndbandið sem miðillinn hefur undir höndum sé lengra og ítarlegra en það sem er í dreifingu á Twitter. Í því myndbandi útskýrir móðirin til að mynda að hún hafi farið í bakaríið með syni sínum til að róa hann niður eftir afskipti lögreglunnar í strætisvagninum í gær. „Þegar barnið mitt, 16 ára, þið sendið sérsveit á hann og eruð komin aftur í dag.“
Þá segist hún skilja að lögreglumennirnir séu að sinna sínum störfum en tekur fram að þetta sé ekki í lagi. Hún segir að um „racial profiling“ sé að ræða en það er þegar lögreglan beinir athygli sinni að fólki af ákveðnum kynþætti þegar hún er að rannsaka mál. „Þetta er ekkert annað en „racial profiling“ á 16 ára barn sem ég er að reyna að róa niður vegna atviks gærdagsins,“ segir hún.