Þrír starfsmenn Ferðamálastofu, einn núverandi og tveir fyrrverandi, hafa leitað til menningar- og viðskiptaráðuneytisins með kvartanir á hendur ferðamálastjóra fyrir ótilhlýðilega stjórnarhætti, ofbeldi og einelti. Ferðamálastjóri er Skarphéðinn Berg Steinarsson.
Þessar upplýsingar koma fram í tölvupósti sem Helena Karlsdóttir, forstöðumaður á stjórnsýslu- og umhverfissviði Ferðamálastofu, hefur sent á starfsfólk stofnunarinnar.
Í póstinum kemur fram að Skarphéðinn vilji halda ákveðinni fjarlægð frá málinu og því hafi hann falið Helenu að upplýsa starfsfólk um stöðu mála. Er boðað að ráðgjafar frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu muni ræða við starfsfólk vegna rannsóknarinnar. Ráðuneytið vinnur samkvæmt stefnu og áætlun Stjórnarráðsins gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi.
DV hafði samband við Skarphéðinn Berg Steinarsson vegna málsins. Hann segist, að beiðni ráðuneytisins, ekki getað tjáð sig um þessar kvartanir efnislega en hann hafi svarað fyrirspurnum ráðuneytisins um málið. Segir Skarphéðinn að það sé vægt til orða tekið að hann sé ósammála innihaldi kvartananna.