fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Stríð og slys varpa skugga á sögulegan leiðangur þar sem Íslendingar og rússneskur ólígarki leika lykilhlutverk – „Okkur þykir þetta ofboðslega leiðinlegt“

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 19. apríl 2022 19:08

Leiðangurinn lá um ríki ísbjarna sem settu mikinn svip sinn á ferðina

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í marsmánuði stóðu Transglobal Car Expedition fyrir jeppaleiðangri frá Yellowknife í norðvesturhéruðum Kanada og alls 2.200 kílómetra leið yfir til Resolute Bay í kanadíska sjálfstjórnarhéraðinu Nunavut. Markmið leiðangursins var að keyra í fyrsta sinn frá Norður-Ameríkuflekanum yfir á Norðurheimskautssvæðið, þar á meðal yfir hafís, og náðu leiðangursmenn að ljúka því afreki. Þrátt fyrir Covid, Úkraínustríð Pútíns og óhugnalegt slys hafi sett mark sitt á ferðina.

Úkraínumenn og Rússar meðal leiðangursmanna

Umræddur leiðangur var eins og áður segir liður  í Transglobal Car Expedition. Um er að ræða ævintýralegt framtak þar sem markmiðið er að keyra hringinn í kringum hnöttinn – alls um 50.000 kílómetra leið – frá Ushuaia í Argentínu til Yellowknife í Kanada, þaðan yfir Norðurpólinn og síðan sem leið liggur niður til Nuuk í Grænlandi. Þaðan verður svo siglt yfir til Danmerkur og keyrt alla leið niður til Höfðaborgar í Suður-Afríku þar sem að siglt verður yfir til Suðurskautslandið og keyrt þvert yfir heimsálfuna. Leiðangurinn, sem er farinn í nokkrum skrefum, á svo að enda aftur á upphafsstað í leiðangrinum.

Eins og gefur að skilja eru mismunandi tæki og tól sem leiðangursmenn þurfa að hafa til taks. Nokkrir Íslendingar sem og bílar frá Arctic Trucks voru brúkaðir í áðurnefndum áfanga um heimskautasvæðið. Í hópi leiðangursmanna sem lögðu upp í ferðina  frá Yellowknife til Resolute Bay voru þeir Torfi Jóhannsson og Eyjólfur Már Teitsson. Á hliðarlínunni var svo Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks, en hlutverk Emils í var að vera í sambandi við leiðangursmenn frá Edmonton í Kanada og vera til taks ef þörf væri á.

„Þessi leiðangur tafðist verulega útaf Covid-heimsfaraldrinum. Við töldum að við myndum fá undanþágu miklu fyrr til þess að halda inná svæðið en það gekk erfiðlega og í raun var allt stopp í tvö ár,“ segir Emil. Banninu var loks aflétt í mars á þessu ári og þá var loks hægt að blása í lúðrana og halda af stað.

Leiðangurinn gekk framar vonum þar til að slys á heimleið setti strik í reikninginn. Mynd/Aðsend

Þá kom annað vandamál upp á yfirborðið þegar ómur herlúðra frá Úkraínu setti óvænt strik í reikninginn. Þannig vill til að helsti hvatamaður ferðarinnar er rússneski auðmaðurinn Vasily Shakhnovsky. Shakhnovsky, sem hefur verið á listum yfir ríkustu menn heims, er mikill ævintýramaður en hann auðgaðist meðal annars á olíuvinnslufyrirtækinu Yukos í Rússlandi. Hann hefur verið búsettur í Sviss frá árinu 2003.

„Hann flaug á svæðið í einkaþotu sinni en við lendingu var hún kyrrsett í þrjá daga og áhafnameðlimir máttu sæta yfirheyrslum. Þetta var mjög óþægilegt því við sem komum að leiðangrinum fengum ekkert að vita hver ástæðan var fyrir þessum aðgerðum og við héldum helst að þetta tengdist einhverjum leyfismálum sem við hefðum klúðrað,“ segir Emil.

Stríð Pútíns var svo nýfarið af stað að þeir kveiktu ekki á því strax að um gæti verið að ræða refsiaðgerðir gagnvart rússneskum ríkisborgurum. Öll leyfi lágu hins vegar fyrir og að endingu var málið leyst með sektargreiðslu en talsvert var fjallað um uppákomuna í fjölmiðlum ytra.

Leiðangurinn hélt svo af stað en skuggi stríðsins hafði mikil áhrif. „Það voru Úkraínumenn í leiðangrinum sem og Rússar með mikil tengsl við Úkraínu. Menn sem voru með fjölskyldur og vini innlyksa í landinu. Stríðið hafði því mikil áhrif á allan leiðangurinn þó að menn hafi reynt að einbeita sér að verkefninu,“ segir Emil.

Eins og áður segir tókst hópnum að ljúka ætlunarverki sínu og keyra klakklaust þessa ótrúlegu 2.200 kílómetra leið, meðal annars yfir hættulegan hafís, þar sem að ökutæki hafa ekki átt áður leið um. Alls tók ferðin tæpan mánuð.

Emil Grímsson Mynd/Transglobalcar

Ísbirnir allt um kring

Jeppar Arctic Trucks héldu svo tilbaka sömu leið heim og þá dundi ógæfan yfir.  Einn F-150 jeppinn keyrði yfir of þunnan ís, hrundi í gegn og sökk hratt. Að sögn Emils munaði engu að slysið hafi orðið mannskætt og munaði þar mestu um skynsemi og reynslu bílstjórans Torfa Jóhannssonar.

„Það er alveg ljóst að snör handtök hans og í raun allra sem komu að slysinu forðuðu því að ekki fór illa“ segir Emil.

Tveir jeppanna hafi keyrt á undan hinum. Þeir hafi verið á réttri slóð á hafísnum sem nýlega var búið að þykktarmæla. „Það voru engar ástæður til þess að ætla að ísinn væri orðinn ótraustur,“ segir Emil en afar mikill kuldi var á þessum slóðum. Bílarnir voru á 40-50 kílómetra hraða þegar fyrsti bílinn keyrir yfir blettinn ótrausta en síðan lendir bíll númer tvö, þar sem Torfi sat undir stýri, í ógöngum.

„Á skömmum tíma virðist sem ísinn hafi orðið þynnri. Þá teljum við að kerra á fyrri bílnum hafi brotið aðeins upp úr ísnum og síðan hafi framdekk seinni bílsins brotið meira upp úr ísnum,“ segir Emil. Skyndilega var jeppinn fastur og þrátt fyrir mikið myrkur og erfiðar aðstæður hafi Torfi, sem var við annan mann í bílnum, verið eldsnöggur að hugsa.

„Hann rífur upp talstöðina og lætur aðra leiðangursmenn vita að þeir séu að fara niður,“ segir Emil. Þannig hafi fyrri bíllinn stoppað þegar í stað, keyrt tilbaka en blessunarlega haldið sig í hæfilegri fjarlægð. Sá bíll hafi svo lýst upp svæðið sem hjálpaði Torfa og félaga hans að athafna sig og meta aðstæður.

Tvímenningarnir komast út úr bílnum en Torfi var illa klæddur, á sokkum og nærbol. Hann hafi íhugað að fara aftur inn í bílinn og ná í fatnað og mögulega eitthvað af verðmætum tækjum en metið það óráðlegt. Þess í stað hafi hann náð að losa viðlegubúnað og töskur af þaki bílsins sem skömmu síðar sökk niður um ísinn.

Nístingskuldi var á staðnum og til að bæta gráu ofan í svart hafi för eftir ísbirni verið áberandi. Torfi og félagar hans hafi því í skyndi komist inn í bíl félaga sinna og var hann léttur með því að losa tjöld og annan búnað út á ísinn. Síðan var keyrt upp á nærliggjandi eyju og beðið björgunar. „Þá sjá þeir einn ísbjörninn fylgjast með sér,“ segir Emil til marks um hversu súrealískar aðstæður hafi skapast.

Frá leiðangrinum þegar allt gekk að óskum Mynd/Aðsend

Óánægja innfæddra veiðimanna

Blessunarlega fór allt vel að lokum en þegar fréttir fóru að berast slysinu fór að bera á óánægjuröddum. Innfæddir veiðmenn óttast mjög að mengun af völdum bílsins valdi óafturkræfu slysi á lífríki hins ósnortna svæðis þar sem tegundir eins og mjaldrar, náhvalir, selir, rostungar og bleikjur leggja leið sína um. Í frétt kanadíska ríkisútvarpsins er haft eftir fulltrúa veiðimanna að slysið muni skaða lífríkið með einum eða öðrum hætti og að veiðimennirnir séu meðal annars ósáttir við að hafa ekki verið með í ráðum varðandi leiðangurinn.

„Við lifum af landinu. Við erum ekki bændur heldur veiðimenn og safnarar og við þurfum að hafa svæðið okkar hreint. Það þarf því að hreinsa þetta sem fyrst,“ er meðal annars haft eftir Jimmy Oleekatalik, sem er annar af forsvarsmönnum veiðimanna í bænum Taloyoak í Nunavut.

Kort af vef kanadíska ríkisútvarpsins þar sem sjá má hvar jeppinn sökk

Emil segist vel skilja óánægjuraddirnar en allt verði gert til þess að tryggja að skaðinn verði í algjöru lágmarki. „Okkur þykir þetta ofboðslega leiðinlegt. Við erum að vinna að því hörðum höndum að finna lausn á málinu og erum í góðu samstarfi við yfirvöld hið ytra,“ segir Emil. Ógjörningur sé að ná bílnum upp í þeim aðstæðum sem nú eru á svæðinu og því þurfi að bíða til sumars að ná bílnum upp.

Jeppinn hvarf hratt ofan í ísinn. Mynd/Aðsend

„Það eru yfirgnæfandi líkur á því að það verði lítill sem enginn skaði af bílnum,“ segir Emil. Hann segir bílflakið vera á litlu dýpi, um 6-8 metrum, og að skemmdir virðast litlar sem engar. Að óbreyttu sé því ólíklegt að mikil mengun verði af óhappinu en um 40 lítrar af olíu eru í bílnum, annar vökvi og rafgeymir sem og tölvur og myndavélar.. „Helsta hættan byggist á því að bíllinn liggur svo grunnt að ísjakar geti rekist á hann og fært hann úr stað eða skemmt. Olíutankurinn er vel varinn í grindinni en búnaður gæti þá flotið úr bílnum og dreifst um svæðið,“ segir Emil.

Talið er að jeppinn sé á 6-8 metra dýpi Mynd/Aðsend

Mikill lærdómur af óhappinu

Að sögn Emils er ljósi punkturinn sá að óhappið hafi stuðlað að aukinni þekkingu á aðstæðunum á hafísnum. „Við höfum legið yfir því hvernig þetta gat gerst,“ segir Emil en lausnin gæti falist í gömlum sögum og reynslu veiðimanna á svæðinu. „Það var innfæddur maður með okkur í för. Hann hafði aldrei farið svo norðarlega en hann hafði heyrt sögur um að nýtt tungl (e. new moon) gæti skapað varasamar aðstæður,“ segir Emil. Kenningin sé því nú að miklir undirstraumar hafi valdið því að ísinn varð fljótt svo ótraustur og það sé eitthvað sem muni nýtast í leiðangrum framtíðarinnar.

Emil segir að reynsla leiðangursmanna verði mikilvæg til framtíðar. „Þetta sýnir að sérútbúnir jeppar geta gegnt veigamiklu hlutverki í hverskonar starfsemi á þessum slóðum. Önnur faratæki, til dæmis snjóbílar, fara mun hægar yfir og menga margfalt meira,“ segir Emil.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi