„Sem láglaunakona á Íslandi og Eflingarfélagi langar mig að skrifa nokkur orð um deilur í fjölmiðlum síðustu vikuna um breytingar í verkalýðsfélaginu okkar. Eins og stundum áður þá er fréttaflutningur mjög neikvæður og fullur af fordómum gegn forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, okkar lýðræðislega kjörna formanni,“ skrifar Karla Barralaga Ocon í grein á Vísir.is þar sem hún kemur Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, til varnar.
Sólveig hefur legið undir þungri gagnrýni undanfarið eftir að meirihluti stjórnar Eflingar, undir hennar forystu, ákvað að segja upp öllu starfsfólki á skrifstofu Eflingar.
Karla bendir á í grein sinni að þeir sem hafi kosið Sólveigu og Baráttulistann hafi vænst breytinga á starfsemi skrifstofunnar. Breytingar sem stjórnin hafi í hyggju séu skynsamlegar og nauðsynlegar. Til dæmis hafi starfsfólk þar verið að fá greidda óunna yfirvinnu sem sé óeðlilegt. Karla skrifar:
„Ég er þreytt á því að horfa upp á skynsamlegar og nauðsynlegar ákvarðanir Sólveigar, sem þjóna hagsmunum Eflingarfélaga, útmálaðar á bjagaðan hátt og grafið undan hennar stöðu. Hvernig getur það komið nokkrum á óvart að Sólveig og félagar hennar í stjórn Eflingar séu að gera stórar breytingar á félaginu? Þau lofuðu þessu í kosningabaráttunni í febrúar og þetta er ástæðan fyrir því að margir félagar – þar á meðal ég – kusu þau!
Í mínum huga hefur það lengi verið augljóst að hlutirnir voru ekki í lagi á skrifstofu Eflingar. Sólveig fékk ofbeldishótun frá starfsmanni. Sumir starfsmenn tóku opinskáa afstöðu gegn Sólveigu og stuðningsfólki hennar, og gengu svo langt að skrifa um það greinar í blöðin og fara í viðtöl í fjölmiðlum. Þetta sæmir ekki þeirra hlutverki og truflar mig sem greiðandi félagsmann í Eflingu mjög mikið. Ég var furðu lostin þegar ég sá einn starfsmann lýsa því nýlega yfir í fjölmiðlaviðtali að hún “skuldaði mér ekki neitt” þar sem að ég kaus Sólveigu Önnu og B-listann.“
Karla segir að væntanlegar breytingar muni gera Eflingu að betri vinnustað. Þá er hún ósátt við hvernig sumir verkalýðsforingjar hafa tjáð sig um málið:
„Að lokum vil ég segja að það hefur komið mér á óvart að sjá suma af leiðtogum íslensku verkalýðshreyfingarinnar koma með öfgakenndar neikvæðar yfirlýsingar um breytingar í félaginu okkar. Það er ekki hlutverk leiðtoga í öðrum stéttarfélögum eða samböndum að fordæma lýðræðislegar ákvarðanir forystu stéttarfélagsins míns. Ég krefst virðingar fyrir stéttarfélaginu mínu, fyrir okkar lýðræðislegu ákvörðunum og fyrir rétti forystu okkar til að grípa til aðgerða í þágu hagsmuna félagsfólks.“