Kostnaður við skipulagbreytingarnar innan Eflingar gæti numið allt að 25 milljónum króna. Um er að ræða útselda vinnu til ráðningastofu, lögmannastofu og ráðgjafa. Kostnaðurinn við óunninn mánuð í uppsagnarfresti, sem er liður í samkomulagi við trúnaðarmenn starfsfólks, gæti aftur á móti numið 50 milljónum króna. Þess í stað gæti minnkun á launakostnaði til lengri tíma numið allt að 120 milljónum á ári.
Þetta kemur fram á nýrri vefsíðu sem Sólveig Anna Jónsdóttir kynnti fyrir félagsmönnum Eflingar með tölvupósti í morgun. Í póstinum segir hún umræðuna hafa verið ,,vanstillta” og byggða á ,,röngum eða ófullkomnum upplýsingum.”
Á síðunni er aftekið með öllu að verið sé að bola einstaklingum sem stjórn líki ekki við úr starfi heldur sé verið að uppfæra úrelt og gölluð ráðningarkjör. ,,Ekki er gert upp á milli starfsmanna að neinu leyti og sama gildir um alla: ráðningarsamningum allra er sagt upp og allir starfsmenn hvattir til að sækja um. Ráðningarstofa mun annast nýráðningar í gegnum faglegt ferli þar sem hæfni umsækjenda ræður för.”
Sjálf er Sólveig Anna ekki með ráðningarsamning við Eflingu eins og fram kemur á síðunni.
Ennfremur er því hafnað að verið sé að lækka laun starfsfólks og rýra kjör þeirra. Markmiðið sé að gera launakjör fólks gagnsæ, byggð á málefnalegum grunni fyrir hvert starf, eins og það er orðað. Á síðunni kemur fram að stjórnin muni innleiða þá þá nýjung að fastsetja ákveðið hámarkslaunabil milli hæstu og lægstu launa starfsfólks skrifstofunnar.
Fram kemur að vissulega hafi félagsmenn fengið fréttir af breytingunum í gegnum fjölmiðla en um sé að kenna trúnaðarbroti minnihluta stjórnar sem hafi lekið upplýsingum um breytingarnar. ,,Að sjálfsögðu stóð ekki til að tilkynna starfsfólki um breytingarnar með þessum hætti. Það er mjög miður að trúnaður ríki ekki innan stjórnar félagsins,” segir á síðunni.
Ennig er sagt að ekki sé til þess ætlast að starfsfólk hverfi af vinnustaðnum heldur haldi allir starfsmanna áfram í störfum sínum. ,,Mögulegt er að breytingum kunni þó til skamms tíma að fylgja tafir í þjónustu. Hluti af þeirri aðstoð sem ráðningarstofa, lögmannsstofa og rekstrarráðgjafi veita félaginu vegna breytinganna er að stuðla að sem minnstri röskun á þjónustu. Stjórn er þess fullviss að breytingar muni ganga farsællega í gegn. Markmið breytinganna til lengri tíma er að stuðla að betri þjónustu fyrir félagsmenn.”
Athygli vekur að á síðunni er bent á að starfsmönnum sem séu félagsmenn í Eflingu sé bent á að leita aðstoðar og ráðgjafar hjá Eflingu og ,,fá sömu aðstoð og aðrir félagsmenn í sams konar tilviki hjá öðrum atvinnurekanda.”