Eftir mislukkaða tilraun til þess að ná Kænugarði og fella Úkraínustjórn á þremur dögum, líkt og upphaflegar áætlanir Rússa gerðu ráð fyrir hafa rússneskar hersveitir nú hörfað aftur til Hvíta Rússlands og Rússlands og áætla nú alls herjar árás í Donbas héraði í austur hluta Úkraínu.
„Þeir vilja ná einhverju handbæru á næstu vikum,“ sagði yfirmaður í bandaríska heraflanum við fréttamenn í vikunni. Jafnvel þó Rússum takist að hernema að fullu Donbas svæðið verður það varla talið mikill sigur fyrir hann í ljósi þeirra gífurlega fórna sem rússneski herinn hefur fært undanfarnar vikur.
Mótspyrna úkraínska hersins reyndist margfalt meiri en nokkur spáði þeim í upphafi. Má þar þakka gríðarlegum hergagnaflutningi vesturlanda til Úkraínu undanfarnar vikur.
Nú spá sérfræðingar vestanhafs og í Evrópu því að landamæri Úkraínu og Rússlands verði í lok stríðs nokkuð nálægt því sem þau voru fyrir stríð, og er þá gert ráð fyrir að Donbas verði áfram undir raunverulegri stjórn Rússlands. Þetta segir Phillips P. O’Brien, prófessor í hersögu við St. Andrews háskólann í Bretlandi. Hann bendir á að rússneski herinn sé þreyttur, andi meðal rússneskra hermanna sé slæmur og mórallinn í rúst og að hann er sífellt verr búinn undir átök.
Þá hafa aðrir bent á að með því að sökkva rússneska herskipinu Moskva hafi Úkraínumenn skemmt fyrir getu Rússa til þess að hafa eftirlit með strandlengju Úkraínu að Svartahafinu.
Rússneski herinn hefur nú úr að skipta 65 herdeildum við rússnesku landamærin að Úkraínu, en samkvæmt sérfræðingum er alls kostar óvíst hvort það verði nóg til þess að ná markmiðum Rússa. Rússar verði að læra verulega lexíu af fyrri stigum stríðsins, ætli þeir að ná markmiðum sínum með þessum herafla eingöngu.
Þess má geta að upphaflegur fjöldi hersveita var 130, tvöfalt það sem Rússar hyggjast nú nota til þess að ráðast inn í Donbas.
„Rússland getur sturtað hermönnum inn í Donbas,“ segir Michael Weiss, sem nýverið var staddur í Úkraínu, „en þetta er enn sami herinn og var rekinn frá Kænugarði og er búinn að vera fastur í Úkraínu í 50 daga í stríði við baráttuglaðan og hugmyndaríkan óvin.
Forseti Rússlands, Vladimir Putin, hefur nú skipað Aleksandr Dvornikov, sem áður fór fyrir rússneska heraflanum í Sýrlandi, sem yfirmann rússneska hersins í Úkraínu. Dvornikov var þar áður staðsettur í Téténíu.
Dvornikov þykir þaulreyndur, og hefur skipan hans valdið vestrænum sérfræðingum í hernaði áhyggjum. Hann þykir skipulagður og skipan hans gæti þýtt að Putin sé farinn að sjá stríðið í Úkraínu öðrum augum. „Þú rekur ekki hershöfðingja sem eru að vinna stríðið,“ sagði sagnfræðingurinn O’Brien, og vísaði til forvera Dvornikov. Engu að síður mun Dvornikov erfa illa undirbúinn, illa þjálfaðan og illa staddan her sem þegar hefur mátt þola þúsundir dauðsfalla.
Hvernig sem það stendur, þá er ljóst að orrustan um Donbas verður loka orrustan. Ef Rússum tekst ekki að bera sigur úr býtum þar, er óhugsandi að stríðið geti haldið áfram. Stríðið, sem upphaflega átti að taka endi áður en frost færi úr jörðu, stefnir nú í vor og sumarstríð, sem þýðir að þungir skriðdrekar og drekkhlaðnir flutningabílar rússneska hersins verða héðan í frá að halda sig við malbikaða vegi og brýr, sem mun gefa hersveitum heimamanna mikið forskot.
„Úkraína getur unnið þetta stríð, en aðeins með tímanlegum og almennilegum hernaðarlegum stuðningi vesturlandanna,“ skrifaði Nataliya Bugayova um málið. Úkraínumenn virðast vera því sammála.
„Niðurstaða stríðsins er enn óráðin,“ bætti Bugayova við.