Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, var harðorð um stöðuna sem upp er komin innan Eflingar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Þar sagði hún engan veginn hægt að réttlæta hópuppsagnirnar og að vel væri hægt að taka á hlutum eins og skipulagsmálum og launakerfi á skrifstofu án þess „að fara í hreinsanir“ og vísaði þar til þess að þetta hafi verið gert á skrifstofu ASÍ með góðum og allt öðrum hætti.
Þáttarstjórnandi spurði hana þá sérstaklega: „Þú kallar þetta hreinsanir?“ Og Drífa svaraði: „Já, það er verið að hreinsa út. Algjörlega. Það er ekkert annað en hreinsanir. Ég veit að það er alveg hægt að fara í umbætur án þess að fara slíkt.“
Hún sagðist munu gagnrýna hvern þann atvinnurekanda sem myndi taka svona ákvarðanir og að það hefði komið henni á óvart að þarna hefðu átta manns staðið að baki ákvörðuninni, og vísaði þar til stjórnar Eflingar.
Nú er búið að auglýsa störfin hjá Eflingu og starfsfólki boðið að sækja um störfin sín aftur. „Þetta er svolítið eins og að vera boðið að kyssa vöndinn, þegar þér hefur verið sagt upp.“