Tallulah Robert, bresk skákkona, segist hafa verið áreitt af öðrum keppenda á Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í vikunni. Tallulah, sem var að taka þátt í sínu fyrsta alþjóðlega skákmóti, greinir frá áreitinu á Twitter-síðu sinni en hún segist upplifa sig öruggari til þess nú þegar hún er komin heim til sín eftir ferðina til Reykjavíkur.
„Ég upplifi mig öruggari að tala um þetta nú þegar ég er komin heim. Ég og aðrar skákkonur í mótinu vorum stöðugt vanvirtar af litlum minnihluta karlmanna sem tóku þátt í mótinu. Einn þeirra kleip mig meðal annars í mittið þegar ég gekk fram hjá honum í mótssalnum á meðan skákirnar voru í gangi,“ skrifar Tallulah á Twitter.
Feels safe to talk more about this stuff now I’m home. Myself + other female players were consistently disrespected by a minority of men at the tournament. One even pinched me on the waist when I walked past him in the tournament hall (games were going on, incl my own). #chess
— lula! (@lularobs) April 14, 2022
Hún byrjaði nýlega að tefla og hefur getið sér gott orð á miðlinum Twitch fyrir myndbönd þar sem hún sýnir frá vegferð sinni í skákinni. Reykjavíkurskákmótið var hennar fyrsta alþjóðlega mót en óhætt er að segja að skugga hafa dregið fyrir sólu varðandi upplifun hennar á mótsstað.
„Ég er fullorðin kona að feta mín fyrstu skref í skákinni og ég veit ekki hvernig ungar stelpur eiga að ná áttum í þessu umhverfi. Skákheimurinn er ekki öruggur staður fyrir okkur og ég held að það sé tími til þess að hætta að halda að þessi vandamál séu ekki lengur til staðar og að fólk sé bara með slíka áreitni á netinu. Það er árið 2022 og þetta er að gerast,“ skrifar Roberts ennfremur á Twitter.
Hún segir að það sé erfitt að greina frá þessari upplifun sinni og að hún hafi ekki vitað hvernig best væri að tilkynna um athæfið.
„Ég varð lítil í mér útaf áreitinu og það var ógnvekjandi. Oftast heldur maður að öruggast sé að vera hljóð, brosa og reyna að sleppa strax í burtu frekar en að setja allt í uppnám,“ segir Roberts.
Hún segir að þörf sé á aðgerðum en vill þó taka fram að flestir keppendur hafi verið til fyrirmyndar. „Það voru líka karlkyns keppendur sem ég upplifði mig örugga með, gengu með mér heim á gististaðinn og athugðu hvort að það væri ekki í lagi með mig og buðust til þess að ganga á þá sem voru að áreita okkur. Ég er mjög þakklát fyrir þá og þeir breyttu miklu fyrir mig,“ skrifar Roberts ennfremur.
Rétt er að geta þess að Roberts hefur ekki enn brugðist við skilaboðum frá blaðamönnum DV.
Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands og aðalskipuleggjandi mótsins, segir að hann hafi orðið miður sín þegar honum var bent á upplifun Roberts á mótsstað.
„Mér var bent á þetta seint í gærkvöldi og í morgun hafði ég samband við hana til að fá frekari upplýsingar. Skáksambandið mun taka á þessu máli af festu og við munum gera okkar allra besta til þess að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst á skákviðburðum,“ segir Gunnar.
Hann segir blessunarlega hafi slík kvörtun ekki komið áður fram varðandi Reykjavíkurskákmótið sem hefur verið haldið frá árinu 1964.
„En það er ekki þar með sagt að þetta sé ekki að gerast og það er alveg ljóst að við munum taka þessu mjög alvarlega. Það hefur lengi verið viðloðandi vandamál í skákinni að mun færri konur og kynsegin einstaklingar tefla en karlar og það hryggir því mig mjög að upplifun skákkonu af mótinu sé á þessa leið. Við verðum að tryggja að allir keppendur upplifi sig örugga á skákmótum,“ segir Gunnar.
Hann segir ennfremur að fyrsta skref sé að skoða það hvernig kvörtunum um slíkt atferli sé komið á framfæri. „Roberts bendir einmitt á að hún hafi ekki vitað hvernig best væri að bera sig að varðandi það að koma slíkri kvörtun á framfæri og það er eitthvað sem við getum strax lagað, “ segir Gunnar.