Hinn sextugi Aleksandr Dvornikov var á dögunum útnefndur yfirmaður herafla Rússa í Úkraínu. Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, hefur því sett allt traust sitt á Dvornikov, einn sinn traustasta liðsmann, sem er þekktur fyrir grimmd og miskunnarleysi.
„Ekkert stoppar hann. Hann heldur sig við sovésku aðferðarfræðina – að skilgreina markmið herliðsins og beita því svo það til að tortíma öllu,“ hefur fréttamiðillinn Al Jazeera eftir úkraínska hershöfðingjanum Ihor Romanenko.
Dvornikov fæddist árið 1961 í bænum Ussuriysk í austasta hluta Rússlands, skammt frá landamærunum við Kína. Hann útskrifaðist úr herskóla bæjarins í sautján ára gamall og hélt í frekar nám til Moskvu. Aðeins 22 ára gamall var hann orðinn yfirmaður sinnar eigin herdeildar.
Frami hans innan hersins var stöðugur og en það var í átökunum í Téteníu sem Dvornikov sýndi sitt rétta andlit. Í seinna Téteníu-stríðinu um aldamótin stýrði hann rússneskri herdeild sem olli miklum usla í höfuðborginni Grozny og Dvornikov hlaut viðurnefni sitt „Slátrarinn“.
Fyrst mátti borgin þola sprengjuregn og þar á meðal var ólöglegum klasasprengjum beitt. Að lokum sendi Dvornikov fótönguliða á vettvang sem skutu hvern þann sem þeir komu auga á. Þúsundir óbreyttra borgara létu lífið og að endingu féll borgin þann 6. febrúar 2000 og vinsældir Vladimir Pútín ruku upp. Mánuði síðar var hann kosinn forseti í fyrsta sinn.
Ljóst var að það Slátrara-viðurnefnið var réttmætt eftir framgöngu Dvornikov í Sýrlandi en fyrir tilstilli hans var Aleppo-borg jöfnuð við jörðu með gríðarlegu mannfalli. Framganga Rússlandshers undir stjórn Dvornikov í Grozny og Aleppo eru um margt líkt því sem gerst hefur í úkraínsku borginni Mariupol. Borgin hefur nánast verið lögð í rúst með sprengjuárásum og óbreyttir borgarar hríðfalla.
Dvornikov er í miklum metum hjá Vladimir Pútín Rússlandsforset. Árið 2016 hlaut hershöfðinginn meðal annars orðuna Hetja Rússlands – sem er ein sú æðsta sem er í boði. Núna verður það á hans ábyrgð að redda forsetanum í Úkraínu.
Eins og komið hefur fram hafa Rússar mátt þola niðurlægjandi stundir í hernaði sínum í Úkraínu. Skógi vaxið landslag hefur gert það að verkum að hugaðir úkraínskir hermenn hafa náð að valda Rússum miklu tjóni auk þess sem skipulag birgðaflutninga rússneska hersins hefur riðlast gjörsamlega og gerði það meðal annars að verkum að Kyiv-borg reyndist of stór biti fyrir innrásarliðið.
Dvornikov var settur yfir suðurherdeild rússneska hersins árið 2016, tveimur árum eftir að uppreisnarmenn í úkraínsku héruðunum Donetsk og Luhansk gripu til vopna. Yfirráðarsvæði hans var Krímskagi sem og uppreisnarhéraðanna í Georgíu, Suður-Ossetía og Abkhazíu, og hafði Dvornikov þúsundir reyndra hermanna undir sinni stjórn.
Þegar Dvornikov tók við stjórn herdeildarinnar úr höfuðstöðvum sínum í Rostov-on-don var bardögum í Úkraínu í raun lokið en þess í stað var hafin skæruhernaður sem í raun enn stendur yfir.
Dvornikov hefur á þessum árum aflað sér mikillar þekkingar á Úkraínu. Hann var heilinn á bak við atvik í Azovhafi árið 2018 þegar rússnesk skip lögðu til atlögu við úkraínsk herskip og gerðu þrjú þeirra upptæk. Alls voru 24 úkraínskir sjóliðar teknir höndum og þurftu þeir að dúsa í haldi Rússa í tíu mánuði. Í kjölfarið setti Evrópusambandið Dvornikov og sjö aðra rússneska herforingja á svartan lista.
Þá stjórnaði Dvornikov gríðarlega umfangsmikilli heræfingu árið 2020 þar sem tugþúsundir hermanna æfðu aðgerðir úr lofti, legi og á láði. Æfingin fór fram á 30 stöðum um allt Rússland, á Krímskaga og í Armeníu. Pútín sjálfur mætti og fylgdist með lokahnykk æfingarinnar og rumdi eflaust af ánægju yfir rússnesku stríðsvélinni. Þá þegar vöruðu Úkraínumenn við að æfingin væri undanfari innrásar sem að þeir reyndust svo sannarlega sannspáir um.
Pútín tilnefndi þó ekki einhvern sérstakan hershöfðingja yfir innrásinni og hann sér eflaust eftir því í dag. Nú hefur hann kallað til Slátrarann frá Sýrlandi og það er maðurinn sem á að bjarga heiðri Rússlands.
Það eru þó margir sem að efast um hæfni Dvornikovs til þess að stýra svo umfangsmikilli aðgerð. Hann hafi mestmegnis unnið sig upp á friðartímum og hafi meiri reynslu af afmörkuðum aðgerðum frekar en stríði sem nær nánast yfir gjörvalla Úkraínu.