Hann sagði þetta í ávarpi, sem hann flutti í Vostochny geimskotsstöðinni í austurhluta Rússlands, í gær. Hann hélt því fram að Rússar muni ná öllum markmiðum sínum með innrásinni og varaði við hungursneyð á heimsvísu vegna refsiaðgerða Vesturlanda gegn Rússlandi.
Daily Mail segir að Pútín hafi fullyrt að rússneska hagkerfið og fjármálakerfið hafi staðið refsiaðgerðirnar af sér og að þær muni springa í andlit Vesturlanda vegna verðhækkana á áburði sem aftur muni leiða til skorts á matvælum og auka straum förufólks og flóttafólks til vesturs.
Hann kom einnig inn á þær hryllilegu myndir sem hafa verið birtar af látnu fólki í Bucha og sagði að þær væru falsaðar. Þar með endurtók hann orð talsmanns síns frá því áður um þetta. Lítill vafi þykir leika á að rússneskir hermenn hafi tekið óbreytta borgara af lífi í bænum á meðan þeir voru með hann á sínu valdi.