The Independent skýrir frá þessu. Rússnesk yfirvöld hafa ekki skýrt frá hvar Bespalov féll og þau eru heldur ekki viljug til að skýra frá mannfallinu í stríðinu. Dmitrij Peskov, talsmaður Vladímír Pútíns forseta, viðurkenndi þó á föstudaginn í samtali við Sky News að Rússar hefðu orðið fyrir miklu mannfalli.
The Independent segir að Bespalov hafi verið níundi ofurstinn til að falla í stríðinu í Úkraínu. Nýlega sagði Business Insider að Rússar hefðu misst 18 hershöfðingja og aðra úr röðum æðstu yfirmanna hersins síðan stríðið hófst.
Peter Viggo Jakobsen, lektor við danska varnarmálaskólann, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að enginn vafi leiki á að Rússar hafi misst ótrúlega marga háttsetta herforingja. Hann sagði að nokkrar ástæður geti verið fyrir því.
„Stríðið gegn Úkraínu hefur einfaldlega farið til helvítis fyrir Rússland. Þeir vanmátu verkefnið frá upphafi. Í staðinn fyrir að heyja eitt stríð til að ná einu markmiði hefur Rússland öllu heldur háð þrjú stríð. Það krefst þess auðvitað að fleiri yfirmenn stýri aðgerðunum,“ sagði Jakobsen.
Hann sagði að Rússar hafi mætt meiri mótspyrnu en þeir áttu von á og það hafi haft í för með sér að baráttuandinn og mórallinn hafi verið í lágmarki. Því hafi fleiri yfirmenn þurft að vera í fremstu víglínu til að hvetja hermennina áfram. Einnig hafi borist fregnir af því að rússnesku yfirmennirnir hafi ekki getað notað dulkóðuð fjarskipti. Það hafi gert þá enn berskjaldaðri á vígvellinum og ekki sé annað að sjá en Úkraínumenn hafi verið mjög góðir í að notfæra sér það.
Hann sagði að það sem hafi þó komið honum mest á óvart sé að Rússar hafi ekki náð yfirráðum í lofti í upphafi stríðsins.