Þessar upplýsingar koma fram á slæmum tíma fyrir Trump og fleiri úr Repúblikanaflokknum en vaxandi þrýstingur er á þá um að útskýra af hverju þeir vörðu Pútín áður. Trump hefur verið sakaður um að hafa átt í alltof nánu sambandi við Pútín.
John Bolton, fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi Trump, sagði í samtali við Newsmax sjónvarpsstöðina í síðasta mánuði að frásögn Trump um að hann hefði getað komið í veg fyrir að Pútín réðist á Úkraínu væri einfaldlega ekki rétt.
„Staðreyndin er að hann (Trump, innsk. Blaðamanns) vissi varla hvar Úkraína var. Einu sinni spurði hann John Kelly, starfsmannastjóra númer tvö, um hvort Finnland væri hluti af Rússlandi. Það er einfaldlega ekki rétt að segja að hegðun Trump hafi hrætt Rússana á nokkurn hátt,“ sagði Bolton.
John Bolton pushes back on Newsmax host: "[Trump] barely knew where Ukraine was…It's just not accurate to say that Trump's behavior somehow deterred the Russians" pic.twitter.com/ICRmmeJ8C3
— Jason Campbell (@JasonSCampbell) March 1, 2022
Bolton sagði að það sama hafi átt við um þær refsiaðgerðir sem Trump setti á gagnvart Rússlandi eftir innlimun Rússa á Krímskaga í rússneska ríkjasambandið. Hann sagði að Trump hafi sett sumar af þessum refsiaðgerðum með hálfum huga og hafi „kvartað“ í hvert sinn sem refsiaðgerðir voru innleiddar og sagt að þær væru „þungar“ gagnvart Pútín.
Í nýlegu hlaðvarpsviðtali við Bill Press gekk Bolton enn lengra og sagði að eina af ástæðunum fyrir að Pútín hafi beðið með að ráðast á Úkraínu væri að Trump hefði ekki, eins og reiknað var með, dregið Bandaríkin út úr NATÓ. „Pútín leit á Trump sem mann sem gerði fullt fyrir hann og trúði að á öðru kjörtímabili hans myndi hann gera alvöru úr draumi sínum um að koma Bandaríkjunum út úr NATÓ en það hefði gert áætlanir Pútíns miklu auðveldari,“ sagði Bolton.
Hann endurtók þetta nýlega í viðtali við The Palm Beach Post og sagði að markmið Trump hafi verið að draga Bandaríkin út úr NATÓ og að Pútín hafi beðið eftir að hann gerði það.
Fiona Hill, fyrrum Rússlandsráðgjafi Trump, hafði svipaða sögu að segja í sjónvarpsþættinum „Meet the Press“ á NBC–News í mars. Hún sagði að tilraunir Trump til að fá Volodymyr Zelenskyy, sem þá var nýkjörinn forseti Úkraínu, til að grafa upp einhvern pólitískan skít um um Hunter Biden, son Joe Biden forseta, hafi skipt máli. Trump hótaði meðal annars að hætta hernaðarlegum stuðningi við Úkraínu ef Zelenskyy útvegaði ekki slíkar upplýsingar. Hill sagði að þetta hafi verið hvatning til Pútíns um að ganga enn lengra í aðgerðum sínum gagnvart Úkraínu. „Þetta sendi skilaboð til Pútíns um að Úkraína væri leikfang sem hann gæti haft út af fyrir sig og leikið með ásamt Bandaríkjunum. Og að enginn tæki vernd Úkraínu alvarlega,“ sagði Hill í þættinum og bætti við: „Þetta var endanlegt merki um veikleika Vesturlanda. Pólitískar deilur og deilur stjórnmálaflokkanna okkar voru augljósar og ég held að Pútín sé nú brugðið vegna þess að við náðum saman og gripum til samhentra aðgerða.“