Ásmundur er framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta hjá bankanum. Hann keypti 96.108 hluti í útboðinu á 11,2 milljónir króna.
Upplýsingar um kaup Ásmundar urðu opinber með tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar þann 23. mars þar sem um innherja er að ræða.
Þá var sömuleiðis tilkynnt um tvo aðra innherja en annar þeirra er Ríkharður Daðason, fagfjárfestir og fyrrverandi atvinnumaður í fótbolta, en ástæða tilkynningarinnar er sú að hann er í sambúð með Eddu Hermannsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra Íslandsbanka. Ástæða tilkynningar um kaup Ásmundar er staða hans innan bankans.
Anna Lísa keypti sjálf hlut í Íslandsbanka á síðsta ári daginn eftir að opnu hlutafjárútboði lauk, eins og kemur fram í tilkynningu bankans til Fjármálaeftirlitsins um „viðskipti fjárhagslega tengds aðila“ en þar segir að Anna Lísa sé fjárhagslega tengd fruminnherja, sem er eiginmaður hennar, en hann starfaði þá einnig hjá Íslandsbanka. Anna Lísa keypti þá 12.658 hluti og hvern hlut á verðinu 79.
Í tilkynningu frá Bankasýslunni var söluferlinu lýst sem tilboðsfyrirkomulagi þar sem „hæfum innlendum og erlendum fjárfestum, þ.e. fagfjárfestum og viðurkenndum gagnaðilum“, var boðið að taka þátt í.
Nú þegar nöfn allra kaupenda hafa verið birt er ljóst að þetta var ekki raunin og telur hagfræðingur sem vann að rannsóknarskýrslu Alþingis að lög hafi verið brotin með fyrirkomulagi sölunnar. Sem kunnugt er reis Íslandsbanki upp úr rústum Glitnis sem var fyrsti bankinn til að falla í bankahruninu 2008 og ýmis þekkt nöfn úr hruninu koma við sögu þegar listi yfir kaupendur er skoðaður.
Hávær mótmæli fóru fram á Austurvelli vegna sölunnar í gær og síðustu daga hefur verið tekist á um söluna á Alþingi. Ýmsir þingmenn Vinstri grænna, eins af þriggja ríkisstjórnarflokka, hafa þar gagnrýnt fyrirkomulag sölunnar og viljað skella skuldinni á Bankasýslu ríkisins. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipar stjórn Bankasýslunnar en formaður hennar, Lárus H. Blöndal, er mikill stuðningsmaður Bjarna og skrifað til að mynda grein í Morgunblaðið til að ítreka mannkosti Bjarna í aðdraganda alþingiskosninganna 2013.
Þingmenn Vinstri grænna hafa síðan viljað skella skuldinni á klúður við framkvæmd sölunnar á Bankasýsluna.
Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði í þættinum Vikulokin á Rás 1: „Mér finnst full ástæða til að velta við öllum steinum í þessu, það hafa þingflokksformenn hinna stjórnarflokkanna líka sagt. Fyrir mér virðist vera sem Bankasýslan hafi klúðrað málum.“
Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, segir í aðsendri grein á Vísir.is: „Trúverðugleiki Bankasýslu ríkisins hefur beðið hnekki og það myndi auðvelda stofnunni að endurheimta traust ef forstjóri og stjórn hennar myndu víkja.“
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, sagði í kvöldfréttum RUV í gær að listi yfir kaupendur í Íslandsbanka hafi komið á óvart. „Eins og ég skildi þetta þá var lagt upp með það að það myndu stórir kjölfestufjárfestar fjárfesta í bankanum. Þegar listinn var birtur, þá kom önnur mynd upp.“
Stjórnarandstaðan hefur farið fram á að sett verði á laggirnar sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til að skoða söluferlið, nefnd með meiri heimildir en Ríkisendurskoðun. Þetta samþykktu ríkisstjórnarflokkarnir hins vegar ekki, ekki heldur Vinstri græn, og vilja halda sig við að Ríkisendurskoðun taki málið fyrir.