Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga, steig fram í kjölfar umfjöllunar DV um málið og sagði að um algjört bull væri að ræða því að hún hafi verið við hlið Sigurðar Inga þegar atvikið átti að hafa átt sér stað. Eftir það steig Vigdís sjálf fram og fullyrti að Sigurður Ingi hafði viðhaft særandi ummæli um sig. Sigurður Ingi baðst svo síðar um daginn afsökunar.
Vigdís segir frá fundi sínum og Sigurðar Inga í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni. Í færslunni kemur fram að Sigurður hafi borið fram einlæga afsökunarbeiðni sem Vigdís hefur meðtekið. Hún lítur svo á að málinu sé lokið af hennar hálfu.
„Í dag hittumst við Sigurður Ingi og áttum hreinskilið, heiðarlegt og opið samtal. Ástæður fundarins þarf vart að tíunda en á fundinum bar Sigurður fram að mínu mati einlæga afsökunarbeiðni sem ég hef meðtekið. Ég lít svo á að með þessum fundi okkar sé komið að málalokum og sannanlega er þessu lokið af minni hálfu.“