Þetta sagði Mikhail Khodorkovskij, fyrrum olígarki, í samtali við Bloomberg. Hann sagði að Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, hafi lengi verið þeirrar skoðunar að NATÓ, ESB, Bandaríkin og Vesturlönd séu í stríði við Rússland. „Pútín hefur sagt allt frá byrjun að þau séu með í stríðinu,“ sagði Khodorkovskij.
Hann sagði að það sem Vesturlönd skilji ekki sé að út frá rússnesku sjónarhorni þá séu Vesturlönd í raun í stríði gegn Rússlandi vegna refsiaðgerða þeirra gegn Rússlandi og þeirrar miklu hernaðaraðstoðar sem þau veita Úkraínu.
Hann sagði að þrátt fyrir að NATÓ gerir greinarmun á árás á NATÓ-ríki og ekki NATÓ-ríki, eins og Úkraína sé, þá skipti það Pútín engu máli.
Hann sagði einnig að Pútín „telji NATÓ veikburða og geti ekki einu sinni varið Eystrasaltsríkin“. Lettland, Litháen og Eistland eru einmitt í NATÓ.
Khodorkovskij var áður ríkasti maður Rússlands en hann var eigandi Yukos olíufélagsins. Hann lenti upp á kant við Pútín og var dæmdur í fangelsi fyrir skattsvik og rússneska ríkið tók Yukos yfir.
Khodorkovskij er harður andstæðingur Pútíns og stjórnar hans og dregur ekki af sér í gagnrýni á Pútín og rússnesk stjórnvöld.