Skiptalok urðu í búi Capital Hotels þann 5. apríl síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu í Lögbirtingablaðinu. Greiðslur upp í veðkröfur námu tæplega 487 milljónum króna en ekkert fékkst upp í forgangskröfur né almennar kröfur.
Lýstar kröfur námu næstum milljarði eða: 998.920.011 kr.
Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta sumarið 2020. Þá ræddi Fréttablaðið við einn helsta eiganda félagsins, Árna Val Sólonsson, sem sagði að Covid-19 faraldurinn hafi verið meginástæða þess að rekstur Capital Hotels var tekinn til gjaldþrotaskipta. Þess má geta að gistinóttum fækkaði um tæplega 50% á fyrstu fimm mánuðum ársins 2020 og varð þar aðalskellurinn í apríl þegar 96% samdráttur varð á gistinóttum. Það var síðan í júlí sem Capital Hotels varð gjaldþrota.