„Allir hlutu þeir alvarlega áverka í slysinu og var einn þeirra látinn þegar að var komið. Hinir voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri og annar þeirra síðan á Landspítalann. Frekari upplýsingar um afdrif hans liggja ekki fyrir hjá lögreglu á þessu stigi. Viðbragðsteymi Rauða krossins var kallað út og fóru nokkrir félagar þess til Dalvíkur til að líta til með þeim viðbragðsaðilum sem fyrstir komu á vettvang. Nokkurn tíma tók að afla upplýsinga um nánustu aðstandendur þess látna í Bandaríkjunum. Er þær upplýsingar lágu fyrir í nótt var óskað eftir aðstoð hjá sendiráði Bandaríkjanna við að tilkynna aðstandendum um andlátið,“ segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Neyðarlínu barst tilkynning um snjóflóðið klukkan 19:10 í gær fyrir ofan bæinn Skeið í Svarfaðardal. Einn bandaríkjamannanna sem urðu fyrir flóðinu gat tilkynnt það til Neyðarlínu. Þegar var kallað út mikið lið viðbragðsaðila og aðgerðarstjórn virkjuð á Akureyri. Virkjuð var hópslysaáætlun almannavarna og óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar á vettvang.
Fyrstu viðbragðsaðilar komu á vettvang kl.19.55 og þá fundust tveir menn strax og var annar þeirra slasaður. Stuttu seinna fannst sá þriðji í jaðri flóðsins og var sá einnig slasaður.