Breski tónlistarmaðurinn Ed Sheeran segir að hann sé farinn að taka allt ferlið við tónlistarsköpun sína upp á myndband. Sheeran segir í bút úr viðtali við fréttaþáttinn Newsnight, sem sýndur verður í Bretlandi í kvöld, að hann hafi verið farinn að efast um sjálfan sig og tónlist sína eftir ásakanir um lagastuld. Hafi hann því ekki séð sér annað fært en að gjörbreyta vinnubrögðum sínum. Með upptökunum segist Sheeran vera að vernda sig gegn hugsanlegum ásökunum um lagastuld.
Íslandsvinurinn knái vísar í viðatalinu í bítilinn George Harrison sem lét hafa eftir sér að hann væri hræddur við að snerta píanó, um annarra manna nótur gæti verið að ræða. ,,Við fundum nákvæmlega fyrir því sama í stúdíóinu.”
Sheeran segir það bestu tilfinningu í heimi að finna hugmynd að nýju lagi kvikna. Aftur á móti hafi sú tilfinning breyst í kjölfar ásakananna og hafi hann verið farinn að draga lappirnar og velkjast í vafa um tónlist sína. Sheeran hefur ástæðu til að vera brenndur. Hann var sýknaður af kæru um lagastuld síðastliðin miðvikudag en tónlistarmaðurinn Sami Chokri, sem gengur undir listamannsnafni Sami Switch, vildi meina að Sheeran og meðhöfundar hans hefði stolið parti af smellinum Shape of You úr lagi sínu, Oh Why. Þeir höfnuðu því alfarið. Shape of You var mest selda lag Bretlands árið 2017 og er nú mest streymda lagið á Spotify.
Sheeran segist vera ánægður yfir að málinu sé lokið en það hafi tekið á hann og breytt allri hans sýn á tónlistarsköpun. ,,Þetta er búinn að vera erfiður tími og taka mikinn toll af geðheilsu okkar og sköpunargáfu,” segir Sheeran í þáttabrotinu. Sami Chokri segist aftur á móti ekki vera búinn að gefast upp í baráttu sinni við að fá Shape of You viðurkennt sem stolið að hluta.
Árið 2017 var Sheeran einnig í eldlínunni vegna ásakana um lagastuld þegar að hann var sakaður um að hafa stolið lagi sínu, Photograph. Hann kaus að semja um þá kæru en segist alltaf hafa séð eftir því og ekki getað hlustað á lagið lengi vel. ,,Mér leið undarlega gagnvart þvi og fannst ég skítugur við að hlusta á það.”
Sheeran segist nú geta lagt fram myndbandsupptökur af öllu ferlinu og geti fólk séð með eigin augum hvernig hann semji tónlist. ..Það er ekkert saknæmt að sjá, ekki neitt,” segir Sheeran.