Frá því var greint í morgun að Jón Ingvar Pálsson, forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaga og Bragi Axel Rúnarsson, forstöðumaður stofnunarinnar á Ísafirði hafi báðir verið reknir úr starfi vegna alvarlegra brota í starfi og vanefnda á samningi vegna trúnaðarbrots.
Báðir voru þeir sendir í leyfi í desember.
Nú greinir RÚV frá því að fréttastofa hafi heimildir fyrir því að Bragi hafi verið handtekinn vegna málsins en nú stendur yfir umfangsmikil rannsókn Héraðssaksóknara fyrir vestan og eru tíu lögreglumenn og sérfræðingar á vegum embættisins að störfum við skýrslutökur og húsleit.
Miðillinn BB.is greindi frá því í desember að þeir Jón Ingvar og Bragi hefðu verið sendir í tímabundið leyfi og að talið sé að þeir hafi ráðstafað innheimtuverkefnum m.a. til fyrirtækis í eigu Braga.