Þetta sagði Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins í gær. Hún sagði að rússneskar hersveitir hafi „líklega einnig framið grimmdarverk“ á svæðum í Úkraínu sem eru ekki aðgengileg.
Á myndum frá Bucha sjást lík liggja á götum úti og bera mörg þeirra þess merki að um hreinar aftökur hafi verið að ræða. Hendur fólks voru bundnar fyrir aftan bak og það skotið í hnakkann. Úkraínska ríkisstjórnin segir að rússneskir hermenn hafi tekið fólkið af lífi á meðan þeir voru með bæinn á sínu valdi. Rúmlega 400 lík hafa fundist í bænum.
Rússar neita þessum ásökunum og í gær sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra, að hér væri um „sviðsetningu“ að ræða sem Úkraína og Vesturlönd hafi dreift á samfélagsmiðlum. Reikna má með að fáir trúi orðum utanríkisráðherrans og annarra rússneskra ráðamanna sem neita því að almennir borgarar hafi verið teknir af lífi í Bucha.
Grunsemdirnar um ábyrgð Rússa á voðaverkunum styrktust í gær þegar New York Times birti gervihnattarmyndir, sem voru teknar um miðjan mars, sem sýna lík liggjandi á sömu stöðum á götum Bucha og þegar úkraínskar hersveitir náðu bænum á sitt vald á sunnudaginn.
Í gær fundust fimm lík almennra borgar í gröf í skógi við bæinn Motyzjun, sem er um 35 km frá Bucha. Meðal hinna látnu voru bæjarstjórinn, eiginmaður hennar og sonur. Fjögur lík voru með hendur bundnar fyrir aftan bak. Íbúar í Motyzjun segja að bæjarstjórinn og eiginmaður hennar hafi neitað að starfa með rússnesku hersveitunum.
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, sagði á mánudaginn að draga eigi Vladímír Pútín, Rússlandsforseta, til ábyrgðar fyrir þessi grimmdarverk og kallaði hann stríðsglæpamann.