Síðustu daga hafa rússneskar hersveitir dregið sig frá mörgum svæðum nærri Kyiv og í norðausturhluta Úkraínu. Fram að því höfðu Rússar lagt mikið undir á þessum svæðum og verið með mikinn herafla þar en það dugði ekki til.
Þetta er mikill ósigur fyrir Rússland og Pútín að mati Mathiesen. „Ég tel að Rússar hafi gefist upp á að reyna að ná Kyiv á sitt vald og skipta um ríkisstjórn. Ég er viss um að það var efst á lista þeirra þegar þeir réðust inn í Úkraínu,“ sagði hann.
Vestrænar leyniþjónustustofnanir hafa sagt að Rússar hafi reiknað með að ná Kyiv á sitt vald á nokkrum dögum. Síðan hafi þeir ætlað að koma leppstjórn á í stað stjórnar Volodymyr Zelenskyy forseta.
En eins og kunnugt er hefur þeim ekki tekist að ná Kyiv á sitt vald. Mathiesen sagði að ýmsar ástæður séu fyrir því: „Rússar hafa dreift hersveitum sínum mjög á mjög langri víglínu. Þeir réðu heldur ekki við úkraínsku varnarsveitirnar. Þeir hafa örugglega líka ofmetið þær móttökur sem þeir reiknuðu með að fá.“
Með þessu vísar hann til þess að leyniþjónustuupplýsingar benda til að Rússar hafi talið að þeim yrði tekið sem hetjum og frelsurum þegar þær kæmu til Kyiv og annarra borga. Sögur hafa verið á kreiki um að sumar rússneskar hersveitir hafi haft hátíðarbúninga sína meðferðis til að geta klæðst þeim þegar fagnandi Úkraínubúar tækju á móti þeim. En þess í stað var þeim mætt með sprengjum og skothríð.