Þjóðarleiðtogar víða um heim fordæmdu ódæðisverkin og það sama gerðu mannréttindasamtök. Talað var um stríðsglæpi og þjóðarmorð. Þjóðarmorð er einmitt orðið sem Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, notaði þegar hann ræddi við fréttamenn þegar hann heimsótti bæinn í gær.
En það er langt og flókið ferli að fá einhvern dæmdan fyrir stríðsglæpi að sögn Frederik Harhoff, sem er prófessor við Syddansk háskólann í Danmörku og fyrrum dómari við stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í málum fyrrum Júgóslavíu. Í samtali við Jótlandspóstinn sagði hann að það sem gert var í Bucha sé ekki þjóðarmorð í lagalegum skilningi. Hann sagði að til að eitthvað teljist þjóðarmorð þá verði að vera um að ræða ósk og vilja til að útrýma ákveðnum hópi sem er ekki talin hafa neinn rétt til vera til sem hópur. „Þetta getur verið hópur sem er skilgreindur út frá þjóðerni, kynþætti, uppruna eða trú. En það er ekki um það að ræða í þessu, hér er frekar um að ræða pólitískar ástæður fyrir drápum Rússa á Úkraínumönnum,“ sagði hann.
Hann sagði að hins vegar megi flokka það sem gerðist í Bucha sem stríðsglæp. „Alveg örugglega. Þetta lítur út fyrir að vera stríðsglæpur,“ sagði hann.