Undanfarið hafa Stöð 2 og Vísir.is greint frá ásökunum fyrrverandi meðlima sértrúarsöfnuða um ofbeldi. Meðal trúfélaga sem þar hafa komið við sögu eru Vottar Jehova og Smárakirkja. Trúfélögin hafa mótmælt þessari umfjöllun og raunar brugðist illa við því líka að vera kölluð sértrúarsöfnuðir. Sumir hafa gengið svo langt að skilgreina starfsemi Vottanna sem ríkisstyrkt ofbeldi enda styður ríkið sjálfstæð trúfélög með fjárframlögum.
Bjarni Randver Sigurvinsson trúarbragðafræðingur ritar grein um þetta í Morgunblaðið í dag. Þar segir:
„Fréttaskýringaþátturinn Kompás á Stöð 2 hefur undanfarið beint sjónum að trúarofbeldi í svonefndum sértrúarsöfnuðum og hafa nokkrir fjölmiðlar fylgt þeirri umfjöllun eftir með fjölda frétta. Viðbrögðin í netheimum hafa að sama skapi reynst óvægin í garð umræddra trúfélaga og hefur einn þingmaður Pírata kallað eftir aðgerðum og vill að skrúfað verði fyrir greiðslu sóknargjalda til þeirra.“
Í grein sinni staðnæmist Bjarni nokkuð við skilgreiningar á því hvað telst kirkja og hvað telst sértrúarsöfnuður og segir meðal annars:
„Kirkjuhugtakið er notað um trúarstofnun sem er samofin ríkisvaldinu og gengur út frá því að allir samfélagsþegnar tilheyri henni eða eigi að tilheyra henni. Trúarhópar sem kjósa að lúta stjórn þessarar allsráðandi trúarstofnunar geta fengið að viðhalda sérstöðu sinni í ýmsum efnum innan hennar en engir aðrir eru viðurkenndir og þeir ýmist jaðarsettir eða ofsóttir. Þetta á sérstaklega við um kirkjustofnanir fyrr á öldum.
Sértrúarhópurinn er skipulagður minnihlutahópur sem viðheldur einingu innan sinna raða með félagslegu taumhaldi, styðst við kennivald og er stýrt af náðarvaldsleiðtoga sem uppfylla þarf væntingar fylgismannanna eða embættiskerfi sem grundvallað er á stofnandanum. Sértrúarhópurinn ýmist aðgreinir sig frá ríkjandi meginhefð þjóðfélagsins með áherslunni á sérstöðu sína í kenningu, siðfræði og starfsháttum eða hann er jaðarsettur gegn vilja sínum af þjóðfélagslegum áhrifaaðilum eða sjálfu ríkisvaldinu. Sértrúarhópar geta verið af ýmsu tagi, íhaldssamir í siðferðisefnum eða frjálslyndir, mannréttindasinnaðir eða áhugalausir um hag annarra, innhverfir og einangrunarsinnaðir eða samfélagslega umbótasinnaðir og jafnvel byltingarsinnaðir o.s.frv.“
Bjarni hefur áhyggjur af jarðasetningu trúarhópa og bendir á að ofbeldi leynist víða í mannlegu samfélagi og sökudólgarnir séu fólk, ekki trú. Hann segir:
„Trúarofbeldi hefur margvíslegar birtingarmyndir og það getur verið til staðar óháð því um hvers konar formgerðir trúarhreyfinga er að ræða. Ekki er þó hægt að afgreiða trú, trúarhreyfingar eða trúarbrögð í öllum sínum menningarlega fjölbreytileika út af kortinu á slíkum forsendum. Trú getur verið heilbrigð en hún getur líka verið óheilbrigð. Það er manneskjan sem er vandamálið og hvernig hún nýtir trúna til að kúga aðra. Slík misnotkun er ekki bundin við trú. Ofbeldi er hvarvetna í mannlegu samfélagi. Trúfélög þurfa á samræðu að halda, ekki jaðarsetningu.“