fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

„Gerviárás“ segir Lavrov um hryllinginn í Bucha

Ritstjórn DV
Mánudaginn 4. apríl 2022 13:01

Sergey Lavrov. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rússneski utanríkisráðherrann Sergay Lavrov hefur nú harðlega gagnrýnd fréttir um hörmungarnar í úkraínsku borginni Bucha og segir að um „gerviárás“ sé að ræða. Samkvæmt honum var árás sett á svið og séu nú Úkraína og félagar þeirra á Vesturlöndum að deila fölskum fréttum til að ala á andúð gegn Rússum.

Staðan í Bucha hefur vakið mikinn óhug undanfarna daga. Þar mátti finna lík, almennra borgara, á götum úti sem greinilega höfðu verið teknir af lífi, sumir með hendur bundnar fyrir aftan bak. Fjöldi vitna hefur deilt sögum af hryllingi sem átti sér stað á meðan bærinn var hernuminn af rússneska hernum. Frásagnir vitna greina frá af pyntingum, kynferðisofbeldi, ránum, og aftökum.

Gerviárás sem var sviðsett

„Um daginn var gerviárás sett á svið í borginni Bucha í nágrenni Kænugarðs eftir að rússneskir hermenn yfirgáfu svæðið samkvæmt áætlunum og samkomulagi sem hafði náðst. Gerviárás var sett á svið nokkrum dögum síðar og er nú verið að básúna á öllum stöðvum og samfélagsmiðlum af talsmönnum Úkraínu og félögum þeirra á Vesturlöndum,“ sagði Lavrov í dag í samtali við Martin Griffith, yfirmann samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA).

Lavrov heldur því fram að rússneskir hermenn hafi yfirgefið bæinn þann 30. mars.

„Þann 31. mars lýsti bæjarstjórinn þí yfir að allt væri í góðu. Svo tveimur dögum síðar sjáum við þessa sviðsetningu á götum bæjarins sem nú á að nota til að ala á andúð gegn Rússum,“ bætti Lavrov við.

Hann vísað svo til árásarinnar á fæðingarsjúkrahúsið í Mariupol, sem vakti heimsathygli.

„Fyrir nokkrum vikum var gerð tilraun til að mála ástand á fæðingarsjúkrahúsi í Maríupol sem stríðsglæp rússneska hersins. Síðar kom í ljós að þetta var gert í áróðursskyni og fölskum upplýsingum dreift sem hafa nú verið afhjúpaðar,“ sagði Lavrov.

Ekki er ljóst hvað Lavrov er að vísa til með þessum ummælum en Rússar hafa þó ýmist haldið því fram að fæðingarsjúkrahúsið í Mariupol hafi verið hernaðarlegt skotmark því úkraínski herinn hafi verið þar með bækistöðvar sínar, að árásin hafi verið framkvæmd af úkraínska hernum eða að árásin hafi alfarið verið sviðsett og þungaðar konur sem í kjölfarið hafi verið myndaðar af blaðamönnum hafi í raun verið leikkonur.

Flýti sér hægt

Dmitry Peskov, talsmaður embættis forseta Rússlands, hefur krafist þess að leiðtogar heimsins hafi sig hæga í yfirlýsingum um aðstæður í Bucha. Hann sagði í samtali við blaðamenn í dag:

„Aðstæðurnar eru vissulega alvarlegar, en við eigum að krefjast þess að margir leiðtogar heimsins flýti sér hægt í yfirlýsingum sínum og ásökunum heldur leita sér upplýsinga frá fleiri heimildum. Í það minnsta ættu þeir að hlusta á okkar rök.“ 

Peskov segir að sérfræðingar varnarmálaráðuneytisins hafi fundið vísbendingar um að myndir og myndskeið frá Bucha séu fölsuð.

„Við alfarið höfnum öllum ásökunum,“ segir Peskov og segir að farið verði fram á að málið verði tekið upp af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. 

Þegar blaðamenn spurðu Peskov hvort hann teldi að myndir og myndskeið frá Bucha sem voru tekin og birt af alþjóðlegum stofnunum séu fölsk. Þá svaraði hann:

„Ég veit ekki hvaða myndbönd þú ert að tala um,“ og „Ég kannast ekki við þessar fréttir“

Sakar Rússa um þjóðarmorð

Fréttaritari ríkisútvarpsins, Jón Björgvinsson, er staddur í Bucha og hefur þar rætt við fólkið í bænum og segir frásagnir þeirra skelfilegar.

„Þetta voru frásagnir af því hvernig menn lágu deyjandi á götum úti án þess að nágrannar þeirra gætu komið þeim til hjálpar vegna leyniskytta sem virðast hafa skotið á allt sem hreyfist. Líkt og þeir hafi verið í veiðitúr, eins og einn orðaði það. Móðir lýsti því í gengum tárin hvernig það var að horfa á lík sonar síns út um gluggann í fimm daga áður en hægt var að grafa hann í garðinum. Og þetta er bara hluti af hryllingssögum bæjarbúanna hér í Bucha. “

Forseti Úkraínu, Volodimír Zelenskí hefur sakað Rússa um þjóðarmorð.  „Hvað gerði úkraínski bærinn Bucha á þinn hlut Rússland?,“ sagði hann í ávarpi í gær. Hann beindi svo orðum sínum til rússneskra mæðra og spurði þær hvernig þær hafi geta litið framhjá þeirri illsku sem í börnum þeirra búi. Hann sagði rússneska hermenn sálarlausa, hjartalausa og bætti við: „Þeir drepa viljandi og af ánægju.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt