Krafturinn í eldgosum er flokkaður í átta flokka, frá einum og upp í átta. Á þeim skala var fyrrgreint eldgos í áttunda flokki. Það var sem sagt ofureldgos af stærðargráðu sem getur breytt heiminum og orðið milljónum manna að bana.
„Engin af allra stærstu eldgosunum hafa átt sér stað á sögulegum tíma. Það vitum við núna. Öll þau eldgos sem við höfum fundið ummerki um lengra aftur í tímanum láta gosið í Eyjafjallajökli blikna í samanburði,“ sagði Anders Svensson, lektor og ískjarnarannsakandi við Niels Bohr stofnun Kaupmannahafnarháskóla, í samtali við Jótlandspóstinn. Gosið í Eyjafjallajökli er í fjórða flokki.
Hann er einn höfundar rannsóknarinnar en hún byggist á rannsóknum á ískjörnum úr Grænlandsjökli og Suðurskautinu. Hún er ritrýnd og hefur verið birt í vísindaritinu „Climate of the Past“.
Með því að mæla magn brennisteins í sýnunum er hægt að sjá hvort og þá hvenær eldgos átti sér stað. Þegar stór gos verða berst mikið af brennisteini hátt upp í andrúmsloftið þar sem það verður að brennisteinssýru sem skyggir á geisla sólarinnar og hefur þannig kælandi áhrif á jörðina.
Svensson sagði að með því að mæla magn brennisteinssýrunnar í ískjörnunum fáist gott mat af hversu mikið magn var í andrúmsloftinu og þannig sé hægt að gera sér betur grein fyrir hversu mikil kælingaáhrif sýran hafði. Hann sagðist telja að kólnunaráhrifanna gæti í 5 til 10 ár, allt eftir hversu öflugt gosið sé. Ummerki í aldurshringjum trjáa eftir eldgosið í Tambora í Indónesíu 1815 staðfesta þetta. Þá lækkaði meðalhitinn á jörðinni um eina gráðu en gosið var í sjöunda styrkleikaflokki.
„Þetta getur haft mjög mikil áhrif í nokkur ár. Til dæmis er talað um að eldgosið í Laka 1783 hafi haft áhrif á Frönsku byltinguna, það þýddi að uppskeran brast í nokkur ár,“ sagði Svensson. Hann sagði líkja megi eldgosi við loftslagsbreytingarnar sem eru nú í gangi, hvort tveggja hafi mikil áhrif á loftslagið.
Hér fyrir neðan er hægt að lesa meira um meint tengsl Skaftárelda við Frönsku byltinguna.
Skaftáreldar 1783–1784 – Voru þeir örlagavaldur í þróun vestrænna samfélaga?