Adrian Damian Scislowics, erlendum ríkisborgara sem hefur verið búsettur á Íslandi síðan árið 2005, hefur verið birtur dómur í Lögbirtingablaðinu. Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness þann 25. febrúar síðastliðinn en ekki hefur tekist að birta Adrian hann, en hans bíður það að afplána tveggja ára fangelsi fyrir glæpi sína og greiða konu sinni og börnum skaðabætur. Þegar rýnt er í dóminn sem ekki hefur tekist að birta sakborningnum kemur í ljós sjö ára hryllingssaga af ofbeldi gegn eiginkonu, syni og dóttur.
Ofbeldissagan nær frá árunum 2012 til 2019 og árið 2013 kærði barnaverndarnefnd manninn fyrir ofbeldi. Langan tíma hefur þó tekið að rannsaka mál hans og gefa út ákæru. Var Adrian ákærður og sakfelldur fyrir líkamlegt og andlegt ofbeldi gegn konu sinni, syni og dóttur. Hann neitaði öllum ásökunum en framburður eiginkonu og barna þótti trúverðugur auk þess sem byggt var á áverkavottorðum. Börnin gáfu skýrslur í Barnahúsi vegna málsins og þótti framburður þeirra vera skýr og trúverðugur.
Ákæruliðir vegna ofbeldis Adrian gegn eiginkonu hans voru samtals sjö. Segir meðal annars í texta dómsins um eitt atvikið:
„Með því að hafa 9. janúar 2013, á sama heimili ákærða og A, á alvarlegan, sársaukafullan og meiðandi hátt ógnað lífi hennar, heilsu og velferð, með því að hafa
tekið utan um báða handleggi A, ýtt henni í hjónarúm þeirra og ýtt höfði hennar ofan í rúmið, tekið um og kreist kjálka hennar, sest klofvega yfir hana í þrígang og haldið henni í rúminu, beint að henni ljótum og meiðandi orðum sem voru til þess fallin að móðga hana og smána, reitt hnefa á loft og hótað henni frekari líkamsmeiðingum og lífláti, allt með þeim afleiðingum að A hlaut marbletti víða á báðum handleggjum og tognun í öxlum og á hálshrygg.“
Mörg önnur tilvik um líkamlegt ofbeldi gegn eiginkonunni eru tilgreind í dómnum en auk þess er hann sakaður um frelsissviptingu gegn henni, en einn ákæruliðanna hljómar svo:
„Með því að hafa aðfaranótt 1. febrúar 2013, á sama heimili ákærða og A, á alvarlegan, sársaukafullan og meiðandi hátt ógnað lífi hennar, heilsu og velferð, með því
að hafa hrint A er hún ætlaði að standa upp úr sófa í stofunni svo hún féll á stofuborð og síðan er hún klæddi sig í úlpu og ætlaði að yfirgefa íbúðina meinað henni brottför og svipt hana með því frelsi sínu, en ákærði hrinti henni aftur inn í íbúðina og ýtti henni inn í svefnherbergi þar sem hann hrinti henni svo hún féll á fataskáp og sló hana ítrekað utan undir með lófum beggja handa og hrinti henni svo hún féll í gólfið en að því búnu lyfti ákærði henni upp af gólfinu og henti henni í hjónarúm, settist þar klofvega yfir hana, tók um höfuð hennar með báðum höndum og lamdi höfði hennar ítrekað í rúmið, allt með þeim afleiðingum að A hlaut marbletti á úlnlið, bólgupoka í lófa og yfir grunnlið þumals og tvo marbletti á hægra læri.“
Adrian er einnig sakfelldur fyrir margskonar andlegt ofbeldi gegn eiginkonunni, hann hafi ausið yfir hana svívirðingum og ógnað henni og hótað.
Adrian er sakaður um margvíslegt ofbeldi gegn syni sínum, meðal annars að hafa kýlt hann í magann í einu tilviki og slegið hann í bakið í öðru tilviki. Í ákæru segir meðal annars:
„Fyrir stórfelld brot í nánu sambandi og barnaverndarlagabrot gagnvart B syni sínum, framin á árunum 2014 til 2020, með því að hafa ítrekað, endurtekið og á
alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt ógnað lífi, heilsu og velferð B með líkamlegu og andlegu ofbeldi og með þeirri háttsemi ítrekað misþyrmt og misboðið drengnum þannig að líkamlegri og andlegri heilsu hans var hætta búin, sýnt af sér vanvirðandi háttsemi, ruddalegt og ósiðlegt athæfi gagnvart honum, móðgað hann og sært…“
Hann var einnig sakaður um samskonar brot gegn dóttur sinn og meðal annars hafa beitt hana margendurteknu líkamlegu ofbeldi á heimilinu, m.a. með því að slá hana í bak og rass, grípa um háls hennar, kreista hönd hennar og toga í og snúa upp á eyru hennar. Hann er einnig sagður hafa beitt hana viðvarandi andlegu ofbeldi, öskrað á hana og talað til hennar með niðrandi hætti.
Adrian var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir áralangt og viðvarandi heimilisofbeldi. Hann var dæmdur til að greiða eiginkonu sinni 3,5 milljónir í miskabætur, syni sínum 2,5 milljónir og dóttur sinni 1,5 milljónir.
Sem fyrr segir hefur ekki tekist að birta Adrian dóminn og er ekki vitað hvar hann heldur sig. Dómurinn féll 25. febrúar síðastliðinn.