Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að í ákærunni sé Gísla gefið að sök að hafa tekið konuna kverkataki, skellt henni utan í vegg og þrengt að hálsi hennar svo hún átti erfitt með andardrátt og hafi fallið í gólfið.
Þegar konan hörfaði inn í herbergi er Gísli sagður hafa farið á eftir henni og gripið ítrekað um handleggi hennar og fleygt henni á rúm. Þetta hafði þær afleiðingar að hún tognaði og hlaut ofreynslu á hálshrygg og brjósthrygg auk fjölda yfirborðsáverka á hálsi, öxl og upphandlegg.
Allt að sex ára fangelsi liggur við brotum af þessu tagi.
Konan krefst þriggja milljóna króna í miskabætur.
Gísli er annar stofnenda Gamma Capital Management. Hann hætti störfum hjá félaginu 2018. Hann átti 30% hlut í félaginu þegar Kvika banki keypti það fyrir 2,4 milljarða sumarið 2018.
Nánar er hægt að lesa um málið í Fréttablaðinu í dag.