Áður en Rússar réðust inn í Úkraínu hafði Kadyrov hvatt ráðamenn í Kreml til að „taka Úkraínu aftur“ og „frelsa“ úkraínskan almenning. Hann sendi síðan úrvalssveitir sínar til Úkraínu til að berjast með Rússum en eins og DV skýrði nýlega frá héldu téténsku sveitirnar heim aftur eftir háðulega útreið í Úkraínu þar sem þær urðu fyrir miklu mannfalli.
Téténskar hersveitir halda heim eftir mikið mannfall í Úkraínu
En svo aftur sé vikið að myndinni sem Kadyrov birti af sér á samfélagsmiðlum á mánudaginn þá sést hann við bænir við bensínstöð og með vélbyssu rétt hjá sér. Hann skrifaði að myndin væri tekin rétt við Maríupól sem Rússar hafa setið um síðustu vikur og látið sprengjum rigna yfir. En eins og fyrr sagði kom myndin upp um lygar hans því á bensíndælunni fyrir aftan Kadyrov stendur „Pulsar“ sem er vörumerki rússneska ríkisolíufélagsins Rosneft. Þar liggur lygin einmitt því Rosneft er ekki með eina einustu bensínstöð í Úkraínu. The Independent skýrir frá þessu.
Þetta er í annað sinn sem Kadyrov reynir að hefja sjálfan sig til skýjanna fyrir stríðsþátttöku í Úkraínu. Í fyrra sinnið birti hann myndband af sér að funda með liðsmönnum úrvalssveita sinna og átti sá fundur að hafa farið fram við Maríupól. En þennan sama dag tók hann á móti rússneskum embættismanni í Grosní, höfuðborg Téténíu, sem gerir að verkum að nær útilokað er að honum hefði tekist að taka á móti embættismanninum þar og vera í Maríupól á einum og sama deginum.