Undarlegar „upplýsingar“ hafa borist frá Rússlandi, að minnsta kosti þegar horft er á þær með vestrænum augum. Má þar nefna að nýnasistar stjórni Úkraínu, að Úkraínumenn fremji þjóðarmorð með því að varpa sprengjum á eigin bæi og borgir og meira að segja leikhús þar sem konur og börn höfðu leitað skjóls.
Einnig hafa Kremlverjar haldið því fram að í Úkraínu séu bandarískar verksmiðjur þar sem efnavopn séu framleidd og verið sé að framleiða kjarnorkuvopn þar. Einnig eiga Úkraínumenn að hafa þjálfað fugla og skriðdýr til að flytja sjúkdómsvaldandi efni til Rússlands. En Rússar eru svo sem ekki einir um að segja ekki alltaf satt frá því það hafa Úkraínumenn einnig gert.
Það getur virst undarlegt í augum okkar Vesturlandabúa að rússneskur almenningur, að minnsta kosti hluti hans, trúi áróðursvél Pútíns þegar hún setur fátt annað fram en rangar upplýsingar. Laura Thornton, forstjóri og sérfræðingur hjá German Marshall Fund‘s Alliance for Securing Democracy, sagði í samtali við New York Times að eiginlega eigum við ekki að vera mjög hissa á þessu. „Af hverju er fólk svo hissa á að þetta form rangra upplýsinga sé svo áhrifaríkt í Rússlandi þegar það virkaði svo vel hér (í Bandaríkjunum, innsk. blaðamanns)?“ spyr hún og á þar við að röngum upplýsingum er oft deilt í Bandaríkjunum þar sem fjölmiðlafrelsi ríkir, ólíkt því sem er í Rússlandi. Til dæmis hafa kannanir sýnt að rúmlega 40% landsmanna telja að rangt hafi verið haft við í forsetakosningunum 2020 og sigurinn hafður af Donald Trump.
En tvö atriði getur Pútín átt erfitt með að útskýra fyrir þjóð sinni. Annað er sú frásögn rússneskra stjórnvalda að refsiaðgerðir Vesturlanda gagnvart landinu séu ekki neitt vandamál. Það verður erfitt fyrir Pútín og hans fólk að halda þessu fram þegar hillur verslana eru orðnar tómar því það sendir allt önnur skilaboð til almennings. Má segja að þarna muni raunveruleikinn ná Rússum.
Hitt atriðið er hið mikla mannfall sem rússneski herinn hefur orðið fyrir í Úkraínu. Rússnesk stjórnvöld hafa ekki gefið upp áreiðanlegar tölur um mannfallið en í síðustu viku var það mat bandaríska varnarmálaráðuneytisins að 7.000 til 15.000 rússneskir hermenn hefðu fallið á fyrstu fjórum vikum stríðsins og að í heildina hefðu allt að 40.000 fallið eða særst. Það getur því reynst rússneskum yfirvöldum erfitt að halda sig við þá sögu að mikill fjöldi hermanna hafi látist á æfingum þegar staðreyndin er sú að þeir féllu í stríðinu í Úkraínu.