fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
Fréttir

Rannveig opnar sig um erfiðar fæðingar – Dónaleg ljósmóðir, garnalömun og tólf tíma blóðgjöf

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 30. mars 2022 21:27

Rannveig Ernudóttir. Aðsend mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þáttur Kveiks sem sýndur var á RUV í gærkvöldi hefur vakið mikla athygli en þar var rætt við Bergþóru Birnudóttur sem örkumlaðist við fæðingu eins stærsta barns sem fæðst hefur hér á landi. Hún segir ekki hafa verið hlustað á sig þegar hún talaði um ýmsa vanlíðan á meðgöngunni og undirbýr hún nú stefnu á hendur ríkinu vegna meintra læknamistaka.

Rannveig Ernudóttir, varaborgarfulltrúi Pírata, er ein þeirra sem segir átakanlega frásögn Bergþóru hafa hreyft við sér. „Þetta á bara ekki að gerast! Það er eitt að fæðingar geti verið erfiðar og tekið á. En röð mistaka eða ólíðandi framkoma er bara ekki það sama,“ segir hún.

Rannveig hefur gengið með og fætt þrjú börn af þeim fjórum sem hún á með eiginmanni sínum, og lýsir sinni reynslu af samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk á þessum meðgöngum í opinni Facebookfærslu sem hún gaf DV góðfúslegt leyfi til að deila.

Hún glímdi við lágþrýsting á öllum meðgöngum en hann varð verri með hverri meðgöngu og var viðloðandi alla síðustu meðgönguna, og á endanum var hún orðin svo slæm að hún fór að finna fyrir depurð. Þegar hún svo kemur í mæðraskoðun á 36. viku að hitta fæðingarlækni sagðist hann strax sjá vel hvað hún væri illa haldin og ætlaði að meðhöndla hana með lyfjagjöf. Lyfið sem hún fékk ávísað var hins vegar ekki við lágþrýstingi heldur við depurð.

„Ég leysti það aldrei út! Við hjónin vorum brjáluð. Meira og minna alla meðgönguna hafði ljósmóðirin gert athugasemdir við blóðþrýstinginn minn og sagt mér að hún vildi sjá hann hærri næst og svo endurtók leikurinn sig bara aftur og aftur í hverri skoðun. Aldrei kom nein ráðlegging um hvernig ég ætti að hækka þennan blóðþrýsting,“ segir Rannveig sem á endanum fór að gúggla og komst þá að því að það væri eitt einfalt ráð sem gæti gagnast – að drekka meira vatn.

Hræðileg upplifun

Fyrir fæðinguna hafði hún óskað eftir því að vera skráð í fyrirfram keisara af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna erfiðleika í fyrri fæðingum, en ekki fengið. „Ég fann það í hverri frumu í líkama mínum að ég ætti að fara í keisara. En var töluð niður, af því að á pappírum var síðasta fæðing nokkuð fín. En engu skipti að upplifun mín af þeirri fæðingu var hræðileg.

Fæðingin á fyrsta barninu mínu hafði verið allt annað en góð, en sú fæðing stóð yfir í 36 tíma, 3 1/2 tími í rembing, nota þurfti sogklukku (sem var hræðilega sárt!) og svo þurfti ég sjálf að fara í aðgerð eftir fæðinguna því það var fylgjubiti eftir og ég var búin að missa mjög mikið blóð. Ég þurfti því að fara í 12 tíma blóðgjöf.

Mistökin ekki í fæðingarskýrslu

Versta var að röð mistaka og fruntalegrar framkomu við mig og manninn minn átti sér líka stað,“ segir Rannveig og er mikið niðri fyrir. „Byrjum á ljósmóðurinni sem var dónaleg við okkur og talaði alltaf niður til mín,“ segir hún en þarna var Rannveig aðeins 21s árs gömul og upplifði að talað væri við hana eins og einhvern krakkaasna. Hún tekur fram að hún hefur líka kynnst dásamlegum ljósmæðrum og þykir almennt mjög vænt um stéttina.

En þessi ljósmóðir hafi síðan viljað gefa henni dripp til að auka hríðar en gleymdi að stilla drippið. „Það þýddi að ég lenti í hríðarstormi sem er hræðileg reynsla og þurfti að sprauta mig niður, ég bý yfir minningarbroti um að sitja á brúninni á rúminu, ennið mitt að enni mannsins míns og hann heldur um höfuðið mitt, ég man að ég verð að vera kjurr, en þá var verið að mænudeyfa mig, svo man ég ekki meira fyrr en í rembingnum. Ég tel rétt að nefna að þessi mistök er ekki að finna í fæðingarskýrslunni minni.“

„Þér á eftir að líða eins og við séum að ráðast á þig“

Eftir rembing í hálfan þriðja tíma fóru ljósmóðir og læknar að tala um að gefa henni dripp og sækja sogklukku, sem hún hafði hræðilega reynslu af, og mótmælti harðlega.  „Þarna vorum við hjónin hreinlega komin í rifrildi við starfsfólkið, dripp kæmi ekki aftur inn í minn líkama auk þess sem mér hafði verið lofað að ég fengi að fara í keisara ef að fæðingin færi að ganga illa, vinsamlega standið við það loforð!

Í miðju þrasinu dettur hjartsláttur barnsins út, allt fer á yfirsnúning, bjöllum hringt og mér tilkynnt að ég sé að fara í bjöllukeisara, fyrst hélt ég að ég hefði unnið rifrildið. En svo áttaði ég mig á því að það var eitthvað að.

Næsta sem ég veit er að ég er í miklu uppnámi, átta mig ekki alveg á hvað sé í gangi, ég græt mikið og virtist ekkert ráða við það. Líkami minn engist um og ég hef einhvern veginn enga stjórn á honum. Fæðingarlæknirinn biður mig um að vera niðri með fótleggina og vera kjurr en ég gat bara ekkert ráðið við það. En svo nær hún athygli minni og segir við mig, mjög ákveðin en líka af umhyggju „Rannveig, þér á eftir að líða eins og við séum að ráðast á þig, en við erum líka að gera einmitt það, við erum að ráðast á líkama þinn til að ná barninu þínu út strax“. Svo er ég svæfð og vakna svo næst á gjörgæslunni.

Við það að detta inn á varanlega örorku

Á gjörgæslunni hitti ég bæði fæðingarlækninn sem ég hafði hitt í mæðraverndinni og svo þessa sem var í fæðingunni sjálfri. Sú sem ég hafði hitt í mæðraeftirlitinu var svolítið skömmustuleg en augljóslega að reyna fela það, ég var frekar köld og sagði henni að mér þætti hún hafa brugðist. Ég var hinni mun þakklátari og hún viðurkenndi þá líka að innsæið mitt hafði verið rétt allan tíman, ég hefði átt að fá að fara í fyrirfram ákveðin keisara og ef að ég ætlaði mér að eignast fleiri börn þá vildi hún að ég kæmi til hennar, hún myndi fylgja mér eftir í mæðraeftirlitinu og sjá um næstu fæðingu, sem yrði keisari.“ En þarna voru þau hjónin búin að fá nóg og ákváðu að eignast ekki fleiri börn .

Ári eftir þessa fæðingu  var hún í sjúkraþjálfun. „Ég lenti í garnalömun inni á spítalanum, fékk einhverja taugaröskun í annan fótinn og var einfaldlega illa stödd andlega og líkamlega. Ég var við það að detta inn á varanlega örorku. Það sem situr nefnilega eftir eftir þetta allt saman er hversu illa var hlustað á mig, ekki tekið mark á innsæi mínu og tilfinningu fyrir því sem koma skyldi. Ég þekki nú samt líkama minn best og einnig fylgdi ég algerlega sama fæðingarmynstri og mamma mín og hennar systur.“

Rannveig lýsir yfir fullum stuðningi við Bergþóru Birnudóttur og vonar að henni gangi sem allra best í hennar málarekstri. „Mér þykir afar sárt og leitt að hún sé svona mikið sködduð eftir eins náttúrulegan og eðlilegan hlut sem fæðing á að vera. Kannski að þetta verði til þess að hlustað verði betur á konur, hvað þá konur sem eru ekki frumbyrjur! Ég ætla að vísu ekki að halda niðri í mér í andanum…“

Hér má lesa færslu Rannveigar í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja
Fréttir
Í gær

Fjórtán ára drengur stórslasaður eftir að hafa tekið upp flugeld – „Af hverju heldur fólk að einhverjir aðrir gangi frá?“

Fjórtán ára drengur stórslasaður eftir að hafa tekið upp flugeld – „Af hverju heldur fólk að einhverjir aðrir gangi frá?“
Fréttir
Í gær

Anna greindist með krabbamein og þurfti í bráðaaðgerð – „Meinið er búið að dreifa sér“

Anna greindist með krabbamein og þurfti í bráðaaðgerð – „Meinið er búið að dreifa sér“
Fréttir
Í gær

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins
Fréttir
Í gær

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna