Hödd Vilhjálmsdóttir almannatengill freistar þess að kveða niður hvimleiðan orðróm þess efnis að hún sé kona sem sendi Árna Pétri Jónssyni, fráfarandi forstjóra Skeljungs, bréf sem leiddi til þess að hann birti yfirlýsingu og sagði upp starfi sínu.
Árni Pétur sendi tilkynningu á fjölmiðla þann 4. febrúar. Þar sagði hann frá tölvupósti sem honum hafði borist nýlega, þar sem fyrrverandi samstarfskona opinberaði vanlíðan sína varðandi samskipti þeirra á árunum áður:
„Nýverið barst mér tölvupóstur frá fyrrverandi samstarfsmanni mínum en við unnum saman fyrir u.þ.b. 17 árum og ég var þá yfirmaður hennar í öðru fyrirtæki. Þar greinir hún frá því að í dag upplifi hún samskipti okkar á þessum tíma með þeim hætti að ég hafi gengið yfir ákveðin mörk. Hún hefur tjáð mér að ekki sé verið að saka mig um ofbeldi, áreiti, brot gegn lögum eða neitt þess háttar heldur hafi verið um að ræða valdaójafnvægi og aldursmun,“ segir í tilkynningu Árna Péturs.
Hann segist hafa beðið hana afsökunar og sagt að hann harmi mjög að heyra um hennar vanlíðan.
„Þrátt fyrir að ég hafi á engan hátt gerst brotlegur við lög þá átta ég mig á því að viðmið og viðhorf hafi breyst í samfélaginu og er það vel. Met ég stöðuna þannig að mál þetta kunni að valda fyrirtækinu og samstarfsfólki óþægindum. Ég hef því óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri hjá Skeljungi hf,“ segir í lok tilkynningarinnar.
Hödd Vilhjámsdóttir segir í stuttri tilkynningu að hún hafi heyrt því fleygt leiðinlega oft að hún sé konan sem kvartaði bréflega undan samskiptum við Árna Pétur. Hödd vill að þessi misskilningur verði leiðréttur í eitt skipti fyrir öll og skrifar:
„Ég hef heyrt því fleygt (mjög allt of leiðinlega oft) að það hafi verið ég sem hafi sent ónefndum forstjóra og fyrrum samstarfsfèlaga bréf í tengslum við gömul samskipti, sem leiddu til uppsagnar hans úr starfi. Ég vil taka það mjög skýrt fram að ég er ekki konan sem sendi umrætt bréf né hef ég nokkra þörf eða ástæðu til að rita slíkt bréf til viðkomandi. Mér þætti mjög vænt um ef hætt yrði að bendla mig við þetta mál þar sem að ég á alveg nóg með mín verkefni og vil síður né get ég staðið í því að heyja orrustur annarra.
Ást og friður,
Hödd.“