Oleg Skyrta, þjálfari Kagal, skýrði frá þessu á Facebook að sögn The Independent. „Því miður tekur stríðið þá bestu. Fyrsti heimsmeistarinn í sparkboxi frá okkar frábæru borg Kremenschuk. Heiðarlegur og góður maður. Hvíldu í friði bróðir. Við munum hefna þín,“ skrifaði Skyrta.
Kagal var þrítugur að aldri. Hann varð heimsmeistari í sparkboxi 2020.
Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu gerði hann hið sama og svo margir aðrir úkraínskir íþróttamenn og greip til vopna og fór í fremstu víglínu til að berjast gegn rússnesku hersveitunum. Í færslu Skyrta kemur fram að Kagal hafi barist með Azov-hersveitinni í Maríupól en Rússar hafa setið um borgina vikum saman og hafa nær gjöreyðilagt hana með stórskotaliðshríð og flugskeytaárásum.