Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, hefur undanfarið rætt í fjölmiðlum um að það sé „þvæla“ að COVID-19 sjúklingum sé ávísað verkjalyfinu Parkódíni. Lyfið sé ávanabindandi ópíóði og rannsóknir bendi til að það geri minna gagn en áður var talið. Ræddi Hjalti um þetta mál í samtali við Fréttablaðið sem og í Kastljósinu á sunnudag, þá einkum í sambandi við að Lyfjastofnun hefur tímabundið veitt heimild til sölu á Parkódíni án lyfseðils til COVID-smitaðra.
Árni Tómas Ragnarsson, læknir, hefur ýmislegt við málflutning Hjalta að athuga. Hann ritar grein um málið sem birtist í Morgunblaðinu.
„Yfirlæknir bráðadeildar Landspítalans fór mikinn í Kastljósþætti RÚV nýlega og varaði við notkun lyfsins Parkódín, sem hann kvað vera stórhættulegt og ætti helst að banna. Hann vísaði líka til þess að rannsóknir hefðu sýnt fram á gagnsleysi lyfsins og að aðrar þjóðir notuðu ekki jafn mikið af þessu og svipuðum lyfjum og við Íslendingar.“
Telur Árni að Hjalti hafi sjálfur enga reynslu af því að annast sjúklinga sem glíma við langvarandi verki og að með málflutningi sínum sé Hjalti að hræða að óþörfu þúsundir Íslendinga sem nota Parkódín til verkjastillingar.
„Parkódín er samsett lyf, sem inniheldur að hluta til lyfið kódín, sem hefur verið notað í áratugi til að stilla verki. Það er eitt elsta verkjalyfið, sem enn er notað í dag og því mikil reynsla komin á notkun þess. Það hefur aldrei verið sýnt fram á skaðleg áhrif þess sé það notað í ráðlögðum skömmtum, sem langflestir gera. Aðeins örfáir einstaklingar ofnota lyfið, en flestir þeirra myndu finna sér önnur lyf og skaðlegri, ef notkun Parkódíns (og álíkra verkjalyfja) væri bönnuð.“
Árni segir að það væri auðvitað voðalega gott ef engir einstaklingar glímdu við verki til langs tíma, en staðan sé því miður ekki þannig.
„Þúsundir Íslendinga eru með langvarandi verki og finnst Parkódín lina þá. Þeir gefa lítið fyrir rannsóknir sem sýna annað. Það er nefnilega þannig að það er enginn, sem veit hvernig öðrum líður á sál og líkama en sá sem á þá sál og líkama. Og þar af leiðandi er enginn, sem veit hvað virkar best gagnvart t.d. verkjum, kvíða, þunglyndi og svefnleysi, nema þeir sem þurfa að búa við þá kvilla. „
Árni segir að það sé aðeins örlítill hluti fólks, sem hafi veri ávísað Parkódíni, sem misnoti það. Langflestir fari eftir leiðbeiningum og hljóti engan skaða af notkun lyfjanna heldur þvert á móti meiri lífsgæði.
„Það er ljótt að hræða fólk frá því að nota lyf í hófi, sem því finnst sjálfu að því líði betur af. Ég hef starfað sem læknir í 50 ár og hef mikla reynslu af notkun þessara lyfja og sárasjaldan séð neikvæðar afleiðingar af því að ég ávísi þeim til skjólstæðinga minna. En fordómarnir meðal margra lækna og almennings eru miklir. „
Árni minnist þess að fyrir árið 1940 hafi nánast engin lyf, eins og við þekkjum þau í dag, verið til. Heldur aðeins mixtúrur sem læknar skrifuðu upp á til að friðþæga skjólstæðinga sína – sem hafi þó verið gagnslausar. Lyfjabyltingin hafi bætt líðan fólks og forðað því frá bana.
„Við lifum því góða tíma hvað lyf varðar, lyf sem hafa bætt líðan og lífslíkur fólks í rúm 80 ár, – lyf, sem ekki voru til áður. Við erum heppin að vera uppi á þessum tímum, en gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því!“
Hér fyrir neðan má sjá færslu Hjalta um Parkódín á Twitter sem varð upphafið að umræðunni.
Ef einhver vill ráð við hósta er best, eins og alltaf, að hlusta á vísindin. Rannsóknir hafa sýnt að eitt besta ráðið er einfaldlega hunang. https://t.co/wX06g6WsK0
— Hjalti Már Björnsson (@hjaltimb) March 17, 2022