Dagbladet segir að svo virðist sem nánir bandamenn og samstarfsmenn Pútíns hafi horfið að undanförnu. Þeirra á meðal er varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu sem stýrir innrásinni í Úkraínu, eða kannski stýrði? Hann er náinn vinur Pútíns og talinn einn af nánustu samstarfsmönnum hans. Yfirvöld í Kreml birtu á laugardaginn upptöku af fundi þar sem Shoigu stýrir fundi um fjárframlög til vopnakaupa. Engin dagsetning er á myndbandinu en það er líklega nýtt því á upptökunni vísar Shoigu í fund sem var haldinn á föstudaginn og rússneskir fjölmiðlar höfðu fjallað um. Áður hafði talsmaður forsetaembættisins skýrt fjarveru Shoigu með að hann væri svo upptekinn af stríðsrekstrinum að hann hefði ekki tíma til að sinna fjölmiðlum.
Á fyrrnefndri upptöku sést Valery Gereasimov einnig en hann er formaður rússneska herráðsins. Hann hafði heldur ekki sést um langa hríð. Engar skýringar hafa verið gefnar á fjarveru hans.
The Moscow Times segir að nú virðist tveir nánir samstarfsmenn Pútíns vera horfnir. Annar þeirra er Viktor Zolotov, fyrrum lífvörður Pútíns og nú yfirmaður þjóðvarðliðsins. Hann hefur ekki sést síðan 14. mars þegar hann viðurkenndi á heimasíðu þjóðvarðliðsins að stríðsreksturinn í Úkraínu gengi ekki sem skyldi.
Þann 22. mars birtu yfirvöld í Kreml myndir af honum á fundi en talið er að þær séu síðan 2017.
Svo virðist sem Alexander Bortnikov, yfirmaður leyniþjónustunnar FSB, sé einnig horfinn af sjónarsviðinu. Hann er gríðarlega mikilvægur hlekkur í valdakerfi Pútíns. Áður höfðu borist fréttir af að tveir háttsettir starfsmenn FSB væru komnir í stofufangelsi. Andlit Bortnikov er á myndum sem yfirvöld í Kreml hafa dreift nýlega af tveimur myndfundum með Pútín en margir hafa bent á að á báðum myndunum sé Bortnikov í sömu fötunum og sami bakgrunnurinn sé á þeim.