,,Meðalmálsmeðferðartími embættisins í kynferðisbrotamálum var 165 dagar árið 2020, og er þá miðað við það tímamark þegar mál berst embættinu að lokinni rannsókn þess og þar til endanleg ákvörðun héraðssaksóknara liggur fyrir um útgáfu ákæru eða niðurfellingu máls. Til viðbótar bætist svo sjálf rannsókn lögreglu og málsmeðferðartími fyrir dómstólum,” segir segir Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélags Íslands, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Í grein sinni tekur Sigurður Örn fyrir nokkur dæmi um seinagang mála innan réttarvörslukerfisins og segir núverandi ástand ekki boðlegt. Hann tekur dæmi af fjárfesti sem fékk tilkynningu um niðurfellingu máls í mars síðastliðnum en upphaf þess mátti rekja til ársins 2007. Síðan séu liðin 15 ár. Einnig tekur Sigurður Örn fyrir dóm Landsréttar frá því í desember 2020. Um var að ræða dóm vegna skattalagabrota á árunum 2007 og 2008. Rekstur mála ákærða hjá skattyfirvöldum, lögreglu, ákæruvaldi og fyrir dómstólum tók tæplega níu ár og tvo mánuði.
,,Þessi dráttur á meðferð kynferðisbrota er líka athyglisverður þegar litið er til þess að sá málaflokkur er í sérstökum forgangi hjá lögreglu, ákærendum og dómstólum. Bæði þegar litið er til árangursins, en líka vegna þess að önnur mál – sem hafa ekki sama forgang – taka enn lengri tíma. Tölfræði héraðssaksóknara yfir málsmeðferðartíma þessara mála er ekki aðgengilegur opinberlega.”
Ennfremur segir í greininni: ,,Þriðjudaginn 15. mars sl. var kveðinn upp dómur í Landsrétti í nauðgunarmáli. Hinn ákærði var sakfelldur en við ákvörðun refsingar hans var litið til þess dráttar sem varð á meðferð málsins. Í forsendum Landsréttar segir m.a. að rannsókn þess hafi legið niðri frá nóvember 2018 til febrúar 2020. Þá gerðist ekkert. Að lokinni rannsókn lögreglu tók sex vikur að senda gögnin til héraðssaksóknara, sem tók ákvörðun um útgáfu ákæru þremur mánuðum síðar. Allt safnast þetta saman. Meðferð málsins fyrir héraðsdómi tók fimm mánuði og svo aðra tólf mánuði í áfrýjun fyrir Landsrétti. Þegar niðurstaða Landsréttar lá fyrir voru liðin þrjú ár og fjórir mánuðir frá því að brotið var kært. Engar skýringar voru gefnar á þeim drætti sem varð á rannsókn málsins hjá lögreglu. Þetta er forkastanlegt en því miður ekkert einsdæmi.”
Sigurður Örn segir bæði stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu tryggja borgurum rétt til fljótvirkar málsmeðferðar. ,,Í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu er borgurunum tryggður réttur til fljótvirkrar málsmeðferðar. Málshraðinn er þannig hluti af réttlátri málsmeðferð. Ástæður þess eru m.a. þær að það er málsaðilum, hvort heldur sakborningi eða brotaþola, í hag að meðferð máls ljúki sem fyrst. Það getur verið þessum aðilum sérstaklega þungbært að lifa við óvissu um málalok og þar með framtíð sína. Þannig getur dráttur máls verið refsing í sjálfu sér, stundum jafnvel þungbærari en sjálfur fangelsisdómurinn.
Þá standa líka samfélagslegir hagsmunir að baki reglunni, en fljótvirk og skilvirk réttarvarsla getur átt sinn þátt í að draga úr afbrotum.” segir í grein Sigurðs Arnar. Greinina má sjá í heild sinni hér.