Trans Ísland, félag trans fólks á Íslandi, hefur sent frá sér yfirlýsingu fyrir hönd stjórnar þar sem félagið gagnrýnir harðlega Morgunblaðið. Félagið segir þetta í annað sinn á fjórum mánuðum sem blaðið birti pistil sem sé uppfullur af fordómum og vísar til laga um hatursorðræðu. Telur félagið að Morgunblaðið gæti hugsanlega verið brjóta gegn þeim lögum.
Í fréttatilkynninguni segir:
Í annað skiptið á fjórum mánuðum hefur stórt dagblað sem dreift er á landsvísu, Morgunblaðið, birt pistil sem er uppfullur af fordómum gagnvart einum jaðarsettasta hópi fólks á Íslandi og annars staðar í heiminum, trans fólki. Þetta er gert undir því yfirskini að um sé að ræða „skoðun“ höfundar sem sé okkur frjálst að ræða og deila um í opnu lýðræðissamfélagi.
Trans Ísland hefur enga löngun til að rökræða raunveruleika tilvistar okkar eða að hrekja þær staðhæfingar höfundarins sem samþykktar voru af ritstjórn og hleypt í prentun. Tilvist okkar er ekki álitamál og er ekki efni í rökræður.
Þess í stað viljum við beina sjónum að þeim kerfislægu vandamálum sem gera það að verkum að fjölmiðlar dreifa hatri og fordómum undir því yfirskini að um „skoðun“ sé að ræða.
Við viljum nefna að í 233. grein a. almennra hegningarlaga má nú þegar finna bann við hatursorðræðu. Í greininni segir:
„Hver sem endurtekið hótar, eltir, fylgist með, setur sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti situr um annan mann og háttsemin er til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.“
Með vísvitandi birtingu rangra og fordómafullra pistla á borð við þessa má færa rök fyrir að Morgunblaðið brjóti í bága við almenn hegningarlög. Morgunblaðið er þar þó ekkert einsdæmi.
Stórir fjölmiðlar birta reglulega skoðanapistla þar sem þolendur kynferðisofbeldis, hælisleitendur, innflytjendur almennt, hinsegin fólk og trans fólk eru smánuð og röngum upplýsingum dreift um þau undir því yfirskini að um sé að ræða skoðanir fólks.
Árið 2012 skrifaði Patrick Stokes, dósent í heimspeki við Deakin University, grein sem hét „No, you’re not entitled to your opinion“ sem fangar þetta vandamál vel. Í stuttu máli:
„Ef „öll eiga rétt á sinni skoðun“ þýðir bara að enginn hafi réttinn til að stöðva annað fólk frá því að hugsa og segja hvað sem það vill, þá er fullyrðingin sönn, en nokkuð smávægileg. … en ef það að „eiga rétt á skoðun“ þýðir „eiga rétt á að litið sé á að skoðanir mans séu alvarlega teknar til greina sem mögulegur sannleikur“ er sú fullyrðing frekar klárlega ósönn. Þetta er einnig greinarmunur sem á það til að mást út.“