Vladimir Pútín, forseti Rússlands, sagði Rússland vera fórnarlamb slaufunarmenningar líkt og rithöfundurinn J.K. Rowling. Þetta kom fram í nýrri ræðu sem Pútín hélt í dag í beinni útsendingu á ríkissjónvarpinu og fjallað er um málið á Sky News og The Independent.
Pútín vitnaði til höfundar Harry Potter-bókanna sem hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir ummæli sín um transfólk og hafa margir hvatt til sniðgöngu á verkum hennar vegna þessa. Hann nefndi þetta sem dæmi um hversu mikil áhrif slaufunarmenningin hefur á Vesturlöndum.
„Þau eru núna að reyna að slaufa landinu okkar,“ sagði Pútín og líkti slaufunarmenningunni við bókabrennum nasista á fjórða áratugnum. „Við munum vel eftir myndum af þeim að brenna bækurnar,“ sagði hann og talaði um að slíkt myndi aldrei gerast í Rússlandi þar sem sé opið fyrir fólki af ólíku þjóðerni.
Hann nefndi að í Vesturlöndum væri núna verið að slaufa heimsfrægum listamönnum á borð við Tchaikovsky,Shostakovich og Rachmaninov. „Þau eru að reyna að slaufa þúsund ára menningarsögu, okkar fólki,“ sagði hann í ræðunni. Fyrr í þessum mánuði tók Fílharmónían í Cardiff til að mynda af dagskrá sinni verk eftir Tchaikovsky.
Mánuður er síðan Rússland hóf stríð í Úkraínu, sem Pútín reyndar neitar að sé stríð og hver sá sem notar það orð yfir innrásina megi eiga von á hárri sekt.