Umboðsmaður barna birti á miðvikudaginn bréf er varðar fyrirkomulag á svokölluðu píp-testi, þolprófinu umdeilda. Í bréfinu er lagt til að fyrirkomulagið á þolprófinu verði tekið til skoðunar en aukin vanlíðan, kvíði og niðurlæging hjá börnum er meðal ástæðna fyrir því.
Eflaust eru einhverjir lesendur sem vita ekki nákvæmlega hvernig píp-test virkar en það er nokkuð einfalt í grunninn. Nemendur eiga að hlaupa ákveðna vegalengd fram og til baka þegar þau heyra ákveðið hljóð. Eftir því sem líður á prófið verður það erfiðara en þá fer tíminn milli hljóðanna að styttast. Ef nemendur ná ekki að hlaupa vegalengdina áður en næsta hljóð hefst þá eru þau dottin út.
Píp-testið er eins og fyrr segir frekar umdeilt. Fólk skiptist í fylkingar og ýmist telja að um hina bestu skemmtun sé að ræða eða þá uppfinningu djöfulsins. Bréf umboðsmanns barna vakti upp þessar fylkingar á samfélagsmiðlinum Twitter í gær en þar hófust fjörugar umræður um þolprófið eftir að vakin var athygli á bréfinu.
Silja Björk Björnsdóttir, rithöfundur og geðheilsuaktívisti, birti skjáskot af frétt Fréttablaðsins um bréfið og gaf í skyn að það kæmi henni ekki á óvart að þolprófið kalli á kvíða, vanlíðan og niðurlægingu hjá börnum.
Í fréttum er þetta helst: Vatn er blautt. pic.twitter.com/YMQQTFkEfN
— Silja Björk (@siljabjorkk) March 24, 2022
Fjöldi fólks tók til máls í athugasemdunum við færslu Silju og tjáði hatur sitt á prófinu. Elín Oddný Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Vinstri græn, tekur til að mynda til máls í athugasemdunum undir færslunni en hún vill að hætt sé að láta krakka þreyta prófið. „Hætta þessu rugli!“ segir hún.
Knattspyrnuþjálfarinn Lárus Björn Grétarsson er þó á því að það væri glapræði að hætta að láta krakka fara í þolprófið í íþróttatímum. Hann líkir því að hætta með prófið við það að vefja bómull utan um krakkana. Margir virðast vera sammála Lárusi því færsla hans um málið fékk rúmlega 400 hjörtu á samfélagsmiðlinum.
Núna vilja einhverjir snillingar að hætt verði með píp-testin í skólanum.
Bómullinn er vafin utan um krakkanna því einhverjir fá kvíða þegar taka skal testin.
Það fellur enginn á svona testi.
Bara verið að meta grunnþolástands þeirra sem taka testin.— Lárus Rúnar Grétarsson (@RunarLarus) March 24, 2022
Færslan fékk þó ekki bara hjörtu heldur einnig athugasemdir en í þeim voru langt í frá allir sammála Lárusi. „Elska þegar kallaköllum skortir tilfinningagreind og samkennd. Af hverju þarf að meta þol barna í skyldunámi?“ segir til dæmis kona nokkur í athugasemdunum við færsluna.
Þá er hryllingssögum af prófinu deilt undir færslunni. „Ég stundaði hestamennsku, mokaði undan 30+ hrossum á dag, fóðraði, rúllaði rúllum og bísnaðist með bagga. Var sterk með gott úthald í minni íþrótt. Fékk 3.8 á píptesti og opinberlega niðurlægð af íþróttakennaranum sem spurði fyrir framan allan bekkinn af hverju ég væri i svona lélegu formi. Á meðan krakkarnir sem fundu sig í boltaíþróttum gátu hlaupið fram yfir næsta tíma með 13+ á píptestinu. Fokk píptest,“ segir til dæmis kona nokkur.
Maður nokkur segir síðan frá því að þrátt fyrir að hann hafi alltaf náð nokkuð góðum árangri í prófinu þá hafi það samt orðið honum að falli. „Var einn af fáum sem náði 8+ í bekknum. Það var samt aldrei nóg því ég æfði fótbolta og var ekki stöðugt í 10+. Var ein af ástæðum þess að ég hætti í fótbolta. Þjálfarar mínir í Leikni skildu aldrei af hverju, því eg stóð mig svo vel á æfingum,“ segir hann.
Þrátt fyrir að Lárus hafi fengið mikið af viðbrögðum frá fólki sem er á móti píp-testinu þá er hann þó ekki einn um að finnast það vera af hinu góða. Leikarinn Hallgrímur Ólafsson segir til að mynda að þolprófið hafi verið með því fáa sem hann náði þegar hann sat á grunnskólabekk.
Jæja þar fór það. Píp-test var nánast eina prófið sem ég náði allan grunnskóla. pic.twitter.com/s6DkYN6pM6
— Hallgrímur ólafsson (Halli Melló) (@hallgrimurolafs) March 24, 2022
Jón Gnarr er einnig hrifinn af píp-testinu ef mark má taka á færslunni sem hann birti um málið:
— Jon Gnarr (@Jon_Gnarr) March 25, 2022
Umræðan hefur á nokkrum stöðum snúist upp í muninn á þolprófinu og öðrum prófum sem krakkar þurfa að fara í á skólagöngu sinni. „Er einhver munur á því að falla í þessu og að falla í íslensku prófi?“ spyr til að mynda einn netverji en þeirri spurningu var fljótt svarað. „Já, þú ert ekki látinn taka íslenskupróf fyrir framan alla og allir sjá einkunnina.“
Þó svo að umræðan hafi farið um víðan völl og margir tekið þátt í henni þá hafa ekki öll gaman af því að rætt sé um þetta yfirhöfuð:
Guð minn einasti Ísland – dagana er loksins farið að lengja og þið eruð að rífast um píp test. Blessi ykkur.
— Alexander Freyr 🇺🇦 (@alexander_freyr) March 25, 2022