Úkraínskum hersveitum tókst í gær að granda rússneska herskipinu Orsk í höfninni í Berdiansk. Skipið flutti birgðir til rússneskra hersveita. Þetta er væntanlega ákveðin mórölsk lyftistöng fyrir Azov-herdeildina sem virðist berjast vonlausri baráttu við að halda Maríupól á valdi Úkraínumanna. Annars staðar í landinu hefur sókn Rússa stöðvast og í morgun bárust fregnir af því að margar rússneskar herdeildir hafi hörfað yfir til Rússlands því þær hafi misst helming liðsafla síns.
Orsk var notað til að flytja hermenn til Berdiansk, sem er nærri Maríupól. Skipið gat flutt 20 skriðdreka, 45 brynvarin ökutæki og 400 hermenn.
Á myndbandsupptöku sést að eldur logar í skipinu eftir að úkraínskt flugskeyti hæfði það. Eldurinn breiddist síðan út til annarra skipa, í skotfærageymslu og eldsneytisbirgðir á höfninni.