STEF hefur ákveðið að stöðva greiðslur til rússneskra tónhöfunda fyrir afnot af tónlist þeirra hér á landi. Ákvörðunin er tekin til að taka afstöðu gegn Rússlandi í stríðinu sem geisar nú í Úkraínu. Öllum greiðslum STEF til Rússlands verður frestað þar til Rússar hætta innrás sinni í Úkraínu.
„Auðvitað er þetta bara einn pínulítill dropi í lækinn héðan en þetta er eitthvað sem við vildum vera hluti af og þetta var einróma ákvörðun stjórnarinnar,“ sagði Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEF, í samtali við Morgunblaðið um málið. Guðrún segir að það sé erfitt að þetta bitni á rússneskum listamönnum en að markmiðið með öllum efnahagsþvingunum sé að mynda nógu mikinn þrýsting svo það komi niður á stríðsrekstrinum.
Rithöfundurinn Ólafur Haukur Símonarson er ósáttur með þessa ákvörðun STEF og greinir hann frá óánægju sinni í færslu sem hann birtir á Facebook-síðu sinni. Ólafur er velkunnugur STEF þar sem hann sat lengi í stjórn samtakanna. „Ég á dálítið bágt,“ segir Ólafur í upphafi færslunnar.
„STEF, félagið mitt sem innheimtir og deilir greiðslum til höfunda fyrir afnot af tónlist bæði innanlands og erlendis hefur ákveðið að frysta þær fáeinar krónur sem rússneskir tónhöfundar eiga að fá greiddar fyrir afnot af tónlist þeirra hér á landi. Þetta er fátækt listafólk, nánast undantekningarlaust, ekki olíugargararnir sem stolið hafa gengdarlaust frá rússnesku þjóðinni í skjóli Pútíns og kóna hans.“
Ólafur veltir því fyrir sér hvort þetta sé ekki of mikið. „Eru menn ekki að fara fram úr sér; listamenn og almenningur í Rússdíá á ekki trilljón dollara listiskip, einkaþotur og húsalengjur í skrautborgarhverfum Lundúna,“ segir hann.
„Ég sat lengi í stjórn STEFs; ég er ekki viss um að ég hefði samþykkt að svifta rússneska lagahöfunda matarpeningunum – þeir eru ekki glæpamenn.“