Mirror segir að Pútín sé öskureiður og hafi hrundið nornaveiðum af stað meðal nánustu samstarfsmanna sinna til að finna „þá seku“, þá sem bera ábyrgð á misheppnaðri hernaðartaktík. Hann er sagður vera æfur af reiði yfir að hernaðaráætlunum Rússa hafi verið lekið til Vesturlanda sem hafi aftur komið þeim í hendur Úkraínumanna.
Hin misheppnaða hernaðartaktík Rússa er sögð aðalástæðan fyrir að nokkrir af æðstu hershöfðingjum landsins hafa fallið í stríðinu.
Pútín er sagður vera orðinn ósáttur við náinn bandamann sinn og vin Sergei Shoigu varnarmálaráðherra sem ber ábyrgð á hernaðinum.
Alexander Bortnikov, yfirmaður leyniþjónustunnar FSB, og bandamaður Pútíns árum saman er einnig sagður vera undir vaxandi þrýstingi frá Pútín og það sama á við um Valery Gerasimov formann herráðsins.
Igor Kostyukov, varaforingi herráðsins, er einnig sagður í hættu á að missa starf sitt vegna reiði Pútíns.
Mirror hefur eftir heimildarmanni að Pútín sé brjálaður yfir að bandarískar og breskar leyniþjónustustofnanir virtust alltaf vita um næstu skref rússneska hersins og hafi spáð fyrir um innrásina áður en hann hafi samþykkt hana opinberlega.