Ef svo fer gæti það hrundið af stað bylgju flóttamanna sem leita til Evrópu sem á nú þegar fullt í fangi við að taka á móti milljónum flóttamanna frá Úkraínu.
Á fundi þings ESB í gær sagði Roman Leshchenko, landbúnaðarráðherra Úkraínu, að Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, væri á góðri leið með að valda „hungurfellibyl“ sem muni hrinda af stað nýrri bylgju flóttamanna frá löndum á borð við Egyptaland, Jemen, Sýrlandi, Túnis og Líbanon. Leshchenko tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.
Hann sagði að úkraínskur landbúnaður eigi sinn þátt í að brauðfæða 400 milljónir manna en það geti hann ekki nú vegna stríðsins. „Eftir nokkra mánuði mun Pútín hafa ýtt milljónum manna út á hengiflug þess að geta lifað af. Það mun skapa hættusvæði í Miðausturlöndum og það er einmitt það sem hann vill,“ sagði hann.
Með orðinu hættusvæði á hann við svæði þar sem matvælaskortur og hækkandi verð geta valdið miklum vanda og flóttamannastraumi.
Hann sagði að Úkraína geti ekki lengur flutt út vörur á borð við hveiti, mjólk og sólblómaolíu. Akrarnir séu skemmdir og Rússar skjóti á útflutningshafnirnar. Ekki sé hægt að flytja matvæli flugleiðis á meðan stríð geisar og vegir landsins séu fullir af flóttafólki og því ekki hægt að nota þá til matvælaflutninga.
Hann hvatti ESB til að slíta öllum tengslum við rússnesk fyrirtæki til að auka þrýstinginn á Pútín.