Hér er yfirlit yfir helstu fréttir næturinnar af málefnum Úkraínu.
Úkraínskir saksóknarar hafa hafið rannsókn á morði og nauðgun á úkraínskum hjónum en rússneskur hermaður er grunaður um ódæðisverkið. Í fréttatilkynningu frá saksóknurum kemur fram að hermaðurinn sé grunaður um að hafa drepið úkraínskan karlmann og síðan nauðgað eiginkonu hans.
Volodymyr Zelenskyy, Úkraínuforseti, segir að friðarviðræður við Rússa séu erfiðar en þeim miði aðeins áfram.
Rússnesk yfirvöld segja að frétt sem birtist á vefsíðu rússnesks vefmiðils á mánudaginn um að 10.000 rússneskir hermenn hefðu fallið í stríðinu í Úkraínu sé röng. Ritstjóri blaðsins segir að tölvuþrjótar hafi brotist inn á vefsíðuna og sett „falsfrétt“ um þetta inn.
Volodymyr Zelenskyy segir að rússneskir hermenn hafi tekið bílalest, svokallaða mannúðarlest, til fanga. The Guardian skýrir frá þessu. Ekki kemur fram hvort fólk eða varningur var flutt með lestinni en bílstjórar voru teknir til fanga af Rússum sagði Zelenskyy á Telegram.
Evrópska veðurfræðisstofnunin hefur ákveðið að hætta að láta Rússum veðurfarsgögn í té. Ástæðan er að slík gögn geta skipt máli ef nota á efna- eða lífefnavopn. Þetta kemur fram á Twitteraðgangi hvítrússneska miðilsins Nexta en hann er andsnúinn stjórnvöldum í Hvíta-Rússlandi.