Hópurinn segist hafa gert margar tölvuárásir á rússneska ríkisfjölmiðla og opinberar vefsíður í Rússandi. Fyrr í mánuðinum lak hópurinn fjölda viðkvæmra skjala frá stjórnvöldum í Kreml. Þessi skjöl tengjast stríðinu í Úkraínu og áróðursmaskínu Rússa.
Anonymous hóta vestrænum fyrirtækjum tölvuárásum ef þau hætta ekki starfsemi sinni í Rússlandi. Hótunin var sett fram á Twitteraðgangi hópsins. Með færslunni voru birtar myndir af vörumerkjum nokkurra fyrirtækja sem eru með starfsemi í Rússlandi.
Meðal þeirra fyrirtækja sem gætu nú orðið fyrir barðinu á Anonymous er svissneski matvælaframleiðandinn Nestle sem hefur tilkynnt að fyrirtækið ætli að halda áfram að selja framleiðslu sína í Rússlandi. Fyrirtækið segist ekki hagnast á sölu sinni í Rússlandi og að það selji aðeins „nauðsynjavörur“ í Rússlandi og haldi áfram að reyna að koma vörum sínum til Úkraínu.